Megafíflið Donald Trump hyggst á ný loka fyrir almenn ferðalög Bandaríkjamanna til Kúbu samkvæmt upplýsingum USA Today.

Trump gæti líklega ekki fundið Kúbu á korti en hyggst á ný meina sínu fólki að heimsækja þessa dásemdareyju.

Bandaríkjaforseti mun tilkynna á föstudag að lokað verði á ný fyrir almenn ferðalög til Kúbu frá Bandaríkjunum. Einungis útvaldir fái ferðaheimildir til og frá eins og raunin var áður en Barack Obama, fyrrverandi forseti, ákvað að opna fyrir ferðalög á milli landanna fyrir tæplega tveimur árum síðan.

Súrt fyrir Kanann sem hefur aldeilis sótt Kúbu heim í massavís síðustu misserin en það er ljós í myrkrinu fyrir aðra þá sem elska hið kúbverska andrúmsloft: snör fækkun bandarískra ferðamanna mun lækka verð á gistingu og þjónustu umsvifalaust.

Engum Íslendingi skal koma á óvart að túristaverðlagið á Kúbu hefur hækkað hratt síðan landið opnaðist fyrir ferðir frá Bandaríkjunum – um allt að 40 prósent að því er fram kemur hjá Business Insider. Að mörgu leyti eðlilegt enda stóraukin eftirspurn eftir mat og gistingu á vinsælum stöðum ekki ólíkt því sem gerst hefur hérlendis.

Plúsinn þó augljóslega sá að meira pláss verður fyrir Kanadamenn, Breta, Þjóðverja, Frakka og Spánverja sem heimsækja Kúbu nokkuð duglega. Og plássið fæst á lægra verði líka.