Þ að þarf að gúggla nokkuð duglega um Noreg til að finna miklar upplýsingar um eynna Senju. Þrátt fyrir það sækja vel yfir 200 þúsund erlendir ferðamenn eyjuna heim á ári hverju og fyrir því eru merkilega margar góðar ástæður 🙂

Norska eyjan Senja státar af miklum fjölga dala á borð við þann sem sést hér sem færi hvarvetna í bækur sem stórkostleg náttúrusmíð.

Þrátt fyrir töluverðan fjölda ferðafólks er Senja ennþá allsæmilegur leyndur gimsteinn í Noregi. Það þarf að hafa aðeins fyrir túr hingað og eyjan, sú önnur stærsta í Noregi, ekki sú auðveldasta að þvælast um. Enginn hringvegur hér þar sem fólk sér allt það markverðasta á einum og sama veginum. Senja státar þó af einum af átján „þjóðvegum” í landinu öllu en það eru leiðir sem þykja sérstaklega spennandi fyrir ferðafólk á flakki um Noreg.

Einn úr ritstjórn þvældist um Senju í fimm daga skeið nýlega og sá getur mætavel mælt með túr hingað eitt hundrað prósent. Fimm stjörnu náttúrufegurð, fjallasalir sem fylla mann lotningu á fimm mínútna fresti, stórkostlegar gönguleiðir um allar trissur, fjöldi tiltölulega ódýrra gistikosta og hér er sáraeinfalt að vera einn í heiminum oggustund en samt hafa alla helstu þjónustu í seilingarfjarlægð.

Tennur djöfulsins

mynd Kylemeyr

Íslensk náttúra engin aukvisi þegar kemur að náttúrufegurð en fjöldi staða á Senju gefa íslenskum fjöllum og dölum ekkert eftir í magnþrunginni fegurð. Stundum jafnvel gott betur eins og raunin er hvað varðar Tennur djöfulsins eins og heimafólk kallar snarbratta tinda þess sem formlega heitir Oksehornen. Þetta er magnaður skagi með óvenjulega hvössum fjallstindum og órólegt hafið sem brotar með látum allt í kring sem skapar aldeilis magnaða náttúrulega umgjörð. Allra tignarlegustu tindarnir eru yst og svo brattir og hvassir að heimamenn fóru að kalla fyrirbærið tennur djöfulsins. Svona staður sem myndir geta í raun ekki gert fullkomlega góð skil. Hér þarf fólk að vitna með eigin augum og þó aðeins búi hér örfáar hræður er þetta fyrirtaks staður til að tjalda og taka allt inn í rólegheitum.

Stríðsminjar

Þó víðsfjarri sé ys og þys Oslóborgar og annarra þéttbýlisstaða þá var Senja í denn tíð geysimikilvægur hernaðarlegur staður. Eyjan skjagar vel út í Atlantshafið og sem slík alveg fyrirtak til að njósna um herskip og eða granda þeim ef svo ber undir. Það ástæðan fyrir því að tæplega þrjú þúsund þýskir hermenn dvöldu hér á eynni eftir að Þjóðverjar lögðu Noreg undir sig í Seinni heimsstyrjöldinni og töluvert víða má enn finna merkilega heilleg varnarvirki þó enginn hirði um þau. Eitt slík má finna við voginn Sandvika skammt frá þorpinu Skrolsvik á suðvesturströnd eyjunnar. Þar gefur enn þann dag í dag að líta bæði heillega fallbyssu og stóra hríðskotabyssu plús vel grafin byrgi þar sem kojur og jafnvel dýnurnar eru enn til staðar þó sjötíu ár séu liðin frá þeim stríðslokum. Mjög heillandi stopp fyrir friðelskandi Íslendinga.

Þjóðvegurinn

Ólíkt því sem gerist á farsæla Fróni eru engir eiginlegir þjóðvegir í Noregi eins og við skiljum þjóðvegahugmyndina. Hjá Norsurum eru vissulega til þjóðvegir, nasjonalveier, en þeir eru nasjonalveier í túristalegu tilliti; með öðrum orðum; akvegir sem eru sérstaklega eftirminnilegir fyrir gestkomandi. Þeir eru átján talsins í landinu og einn þeirra á eynni Senju. Sá er 102 kílómetrar að lengd og liggur eftir dýpstu og fallegustu fjörðunum á norðvesturhluta eyjunnar. Fjörðum sem gefa þessum heimsfrægu í Geirangursfirði ekkert eftir en bjóða upp á nokkuð sem þessir heimsfrægu geta ekki: töluverðan frið og ró svona ef fólk vill taka því rólega á rúntinum. Og hver vill það ekki 🙂

Þá er fátt eitt nefnt sem gerir för til Senju að eftirminnilegri reynslu. Eyjan það stór og ferðafólk enn það sjaldséð að hér spásserar fólk um allar trissur án þess að rekast á 60 kínverska ljósmyndara í rútuferð á fimm mínútna fresti.

Allir vegir hér eru príma góðir og þokkalega breiðir þó Senja sé svona Grímsey Norðmanna og því ekki á topplistum norsku vegagerðarinnar. Víðast hvar, jafnvel í hörðustu krummaskuðum þar sem 30 hræður draga fram lífið, má finna eitthvað til dundurs í boði hvort sem það er kajakleiga, bátsferð eða bara næsheit á barnum.

Til Senju er komist með Hurtigruten ferjunum. Frá Tromsö með ferju eða bátum en einfaldast er sennilega að fljúga til Bardufoss og taka rútu þaðan til bæjarins Finnsnes. Þaðan ráð að leigja bíl til að þvælast um Senju.

PS: Ef fólk gúgglar Senju kemur yfirleitt fyrst upp svokallaður Senjatrollet, sem um áraraðir hefur verið einn allra vinsælasti áfangastaðurinn á eynni enda þar gefið að líta tröllsófreskju mikla úr steini. Sú tröllskessa komst í heimsmetabók Guinness sökum stærðar. Það er hins vegar fátt um upplýsingar þess efnis að tröllskessa þessi er nú horfin til forfeðranna. Steindrangurinn hvers aðdráttarafl var svo sterkt um áraraðir féll saman í flóðum sem urðu á eynni 2018. Þar er nú fátt að sjá lengur og varla heimsóknar virði per se.

PS2: Á Senju er að finna Höfn eins og á Íslandi. Ekki höfn eins og finnst í öllum þorpum og bæjum við sjávarsíðuna heldur Höfn með stóru Hái. Enn er gert út frá Hamn þó í litlum mæli sé en staðurinn öðlast vinsældir sökum fínasta hótels við lítinn bryggjusporðinn í aldeilis vel varinni höfninni. Hér er krökkt af fólki að sumarlagi og fáir staðir þykja betri fyrir hvers kyns ráðstefnur og uppákomur en Hamn enda afar fallegt um að litast og staðurinn hlotið margvísleg verðlaun undanfarin ár. Virkilega fínt stopp.

PS3: Spottakorn frá Hamn, fimm mínútur eða svo gangandi, má finna lítið skilti við veginn sem segir frá því að endur fyrir löngu hafi þar verið ein fyrsta járngrýtisnáma heimsins; Senjas Nickelmine. Ekkert bendir til þess við yfirlit í fljótu bragði enda allt hér gróið í dag. En það sem skiltið segir ekki frá og er mun merkilegra er sú staðreynd að á þessum stað árið 1882 var sett í gang fyrsta vatnsaflsvirkjun heims og sú sá rúmlega 600 starfsmönnum járngrýtisnámunnar fyrir rafmagni töluvert áður en raflýsing varð raunin í mörgum af stærstu borgum heims á þeim tíma.