Hver sá sem reynt hefur að kynna sér ferðamöguleika héðan um páskana hefur væntanlega komist að sömu niðurstöðu og við hjá Fararheill. Það er ekki neitt heilmikið í boði og alls ekkert á þessari stundu sem fæst á viðráðanlegu verði.

Ýkja margt forvitnilegt við páskahátíðina í Grikklandi
Ýkja margt forvitnilegt við páskahátíðina í Grikklandi

Það er önnur saga bregði maður sér bæjarleið yfir til Bretlands en þar eru þarlendar ferðaskrifstofur að kynna páskaferðir sínar. Af mörgu er að taka en áberandi eru flott tilboð margra þeirra til grísku eyjanna. Þangað bjóða ýmsir ferðir í viku eða tvær en þessar tvær að neðan vöktu mesta okkar athygli.

Annars vegar er um fimm stjörnu allt-innifalið ferð með ferðaskrifstofunni Verycheapholidays.co.uk til Korfú. Vikudvölin þar kostar aðeins rúmar 54 þúsund krónur á mann miðað við tvo saman yfir páskahátíðina.

Hins vegar ferð ferðaskrifstofunnar 118 Travel til Goueves á Krít en þar er sömuleiðis allt innifalið á fimm stjörnu hóteli í vikutíma yfir páskana fyrir tæpar 49 þúsnd krónur á mann miðað við tvo.

Báðir pakkar verða að teljast afar góðir því ekki þarf að eyða krónu í mat eða drykki og nánast hægt að geyma veskið heima.

Á hinn bóginn þarf fólk að koma sér til London þaðan sem flogið er og heim aftur að ferðalaginu loknu. Sá kostnaður bætist við.