Eitt það fyrsta sem gestir í Dublin á Írlandi taka eftir eru afskaplega litríkar útihurðir á mörgum húsum í borginni. Gular, grænar, fjólubláar og meira að segja mislitar sumar hverjar. Þær setja æði skemmtilegan svip á annars keimlík húsin.

Hægt er að saka Íra um ýmislegt en ekki að kunna ekki að mótmæla og það með málningu. Mynd pierofix
Hægt er að saka Íra um ýmislegt en ekki að kunna ekki að mótmæla og það með málningu. Mynd pierofix

Tveimur sögum fer af því hvers vegna þetta er svona í Dublin og fyrirbærið finnst víðar í borgum og bæjum á Írlandi þó ekki sé það jafn áberandi.

Skemmtilegri útgáfan er sú að margir írskir eiginmenn hafi á árum áður ekki ratað heim til sín eftir ótæpilega drykkju á næsta pöbb. Því hafi eiginkonur þeirra gripið til þess ráðs til að auðvelda þeim ferðalagið  og mála útihurðirnar í mismunandi litum. Hugmyndin sú að með þeim hætti hafi verið auðveldara fyrir karlpeninginn að muna hvar nákvæmlega þeir áttu heima. Einhverjir þeirra áttu það nefninlega til að villast reglulega á hurðum og lenda jafnvel uppi í rúmi hjá rangri konu.

Því miður er þessi ágæta saga ekki alveg dagsönn þó hugmyndin sé fín.

Rétt er hins vegar að þegar Albert prins, eiginmaður Viktoríu Bretadrottningar, lést árið 1861 tilheyrði Írland bresku krúnunni gegn vilja meirihluta landsmanna. Varð Viktoríu svo um dauða eiginmannsins að hún skipaði svo fyrir að allar hurðir í Bretaveldi skyldu málaðar svartar til minningar um Albert litla.

Sú krafa fór illa fyrir brjóst hinna þjóðernissinnuðu Íra sem umsvifalaust hlupu margir til og máluðu útihurðir húsa sinna í öllum öðrum litum en svörtum. Þó Írar hafi fyrir allnokkru hlotið sjálfstæði er þetta orðin hefð í dag og hurðir margra íbúðarhúsa málaðar árlega.