Guð hvað við þurfum miklu meiri samkeppni í flugi til Tenerife. Það allavega ekkert eðlilegt við að munur á lægsta fargjaldi og því hæsta hjá Primera Air í næsta mánuði AÐRA LEIÐINA skuli ekki vera nema 406 prósent!!!

Sama sólin, svipaður tími árs en hátíð Guðs og félaga þýðir rúmlega 400 prósenta hækkun á flugfargjöldum. Skjáskot

Þann 22. apríl næstkomandi geta áhugasamir sóldýrkendur skottast aðra leiðina til Tenerife með Primera Air fyrir litlar 15.999 krónur þegar þetta er skrifað. Fínt verð í alla staði og þokkalega eðlilegt líka því ekkert er innifalið í því fargjaldi annað en sæti um borð.

Töluvert annað er uppi á teningnum tveimur vikum fyrr. Þá þarf einstaklingur sem ferðast með ekkert að punga út 59.999 krónum (275% hækkun) og vilji sá hinn sami hafi eitthvað meðferðis og jafnvel velja sæti líka, sem ekki er óeðlilegt á langri flugleið, hoppar prísinn umsvifalaust í litlar 80.999 krónur!!! (406% hækkun.)

Ágætt að hafa hugfast að hér er um flug AÐRA LEIÐ að ræða. Græðgi Primera Air er slík að þeir fara fram á allt að 160 þúsund krónur báðar leiðir til Tenerife yfir páskavertíðina vilji fólk annað en sardínupakkann. Þetta er svo taumlaus græðgi að engu tali tekur og sérstaklega erfitt að kyngja með tilliti til að það er auðvitað páskahátíðin sem veldur þessum miklu vinsældum og þar með himinháum fargjöldum. Og okkur vitandi kemur hvergi fram í biblíunni að okra beri linnulaust á lýðnum í hvert sinn sem faðir vor gefur okkur frí.