Það virðist vera ríkisleyndarmál hvað greiða þarf fyrir netaðgang á almennings farrými hjá Icelandair. Fyrirspurnum varðandi slíkt er ekki svarað, engar upplýsingar veittar á innlendum né erlendum vefum flugfélagsins og spurningum þess efnis á fésbókinni sömuleiðis látið ósvarað.

Meðan Icelandair gefur ekki upp kostnað við netnotkun um borð í vélum sínum er best að láta netnotkun þar vera.
Meðan Icelandair gefur ekki upp kostnað við netnotkun um borð í vélum sínum er best að láta netnotkun þar vera.

Engin leynd hvílir yfir kostnaðinum á Saga Class farrými en þar er ótakmörkuð netnotkun innifalin í verði. En sauðsvartur almúginn sem ekki ferðast í þeim sætum má éta það sem úti frýs virðist vera. Á fésbókarvef flugfélagsins finnum við fjórar fyrirspurnir þessa efnis en engum þeirra svarað af hálfu Icelandair.

Vekur leyndin töluverða athygli ritstjórnar Fararheill enda yfirleitt svo að menn og fyrirtæki hafa eitthvað að fela í þeim tilvikum sem engar upplýsingar eru gefnar. Það eina sem gefið er upp um kostnað við netaðgang í almennings-farrými á vef Icelandair er að kostnaðurinn sé „misjafn.“ Það segir sig sjálft og varpar engu ljósi á hvort það er kostnaðarsamt eða þess virði.

Það er hins vegar líklegt að kostnaðurinn sé himinhár því ef svo væri ekki myndi fyrirtækið alls ekki fela það. Himinhár netkostnaður í farþegavélum hefur einmitt komist í hámæli erlendis og flugfarþegar fengið að kenna á akfeitum reikningum eftir netnotkun í flugi. Nema vitaskuld hjá Norwegian þar sem netið er frítt fyrir alla.