Það er enginn skortur á fólki með heilræði þegar að ferðalögum kemur og allra síst nú þegar ráðleggingar finnast á fleiri þúsund ferðavefum á heimsvísu um hvert einasta krummaskuð á plánetunni. En sumar ráðleggingar eru mun síðri en aðrar.

Gætirðu nokkur steikt helvítis fiskinn!!! Mynd mjrtom999
Gætirðu nokkur steikt helvítis fiskinn!!! Mynd mjrtom999

Við rákumst á nokkur slík gullkorn á vafri um vefinn nýlega og ekki laust við brosviprur við lesturinn enda þetta ráðleggingar sem eru líklegri til að skapa vandræði en hitt. Líklega líka settar fram sem grín fremur en annað.

♥  Vissir þú til dæmis að ALLIR ættu að panta einn cappucino með hádegis- og kvöldmat á veitingastöðum á Ítalíu? Það sendir þjónum staðarins skýrt merki um að þú sért hvorki nýgræðingur né túristi og þú færð betri þjónustu í kjölfarið. (Hundrað prósent della.)

♥  Allir Kanadamenn elska íshokkí. Víðast hvar sýna menn stuðning við þá íþrótt með því að ýta við heimamönnum á götu úti. (Gott ráð til að lenda í slagsmálum.)

♥  Þegar og ef þú heimsækir Bernabeau, heimavöll Real Madrid, í Madríd ekki gleyma að klæðast þjóðarlitunum hvítu og rauðu. (Sem eru litir höfuðandstæðingsins Atletico de Madrid og ávísun á barsmíðar.)

♥  Japanir hata sushi rétti jafn mikið og við hin en þora ekki að tjá sig um það. Þannig mun það bara kalla fram góðar móttökur og bros að gefa í skyn að þeir ættu nú bara að steikja helvítis fiskinn í tvær mínútur eða svo til að gera hann ætan. (Einhver versta móðgun í landinu.)

♥  Þriðjudagar í Kína eru opinberir Falun Gong dagar. Ef þú ert ekki viss um hvar þeir safnast saman er ráð að leita ráða hjá næsta lögreglumanni. (Falun Gong samtökin bönnuð í Kína og fangelsisdómur ekki fráleitur ef farið er eftir þessu.)