Öll eigum við ferðasögur sem bragð er að og sögurnar jafn misjafnar og fólkið er margt. Fararheill tók hús á nokkrum skemmtilegum einstaklingum með ferðabakteríuna í blóðinu og fékk þá til að deila örlítið.

Hið þekkta Borðfjall gnæfir yfir Cape Town. Mynd Danie van der Merwe
Hið þekkta Borðfjall gnæfir yfir Cape Town. Mynd Danie van der Merwe

Þorbjörg Jónsdóttir er 36 ára mannfræðingur sem hefur meðal annars látið draum sinn um hjálparstarf erlendis rætast. Hún dvaldi um tíma í Cape Town í Suður Afríku en sú er kannski betur þekkt sem Höfðaborg.

Fararheill: Dásamlegasta land sem þú hefur heimsótt og af hverju?

Þorbjörg:  Vá þetta er erfið spurning. Í London er ótrúlega fjölbreytt mannlíf og leikhúsin eru frábær, þar er nóg að sjá og manni þarf aldrei að leiðast. Mér þykir líka vænt um Danmörku og þá sérstaklega Kaupmannahöfn þar sem manni líður alltaf einsog heima hjá sér, allir svo ligeglad og til í einn öl. Stemmningin er eitthvað svo notaleg og Strikið svíkur engan. Cape Town í Suður Afríku á líka sérstakan sess í hjarta mínu, ótrúlega fallegt land og þrátt fyrir þá miklu fátækt sem ríkir þar voru allir sem ég hitti yndislegir og mér leið alltaf vel á meðan ég dvaldi þar. Ekki skemmdi veðrið heldur fyrir.

Fararheill: Besta verslunarborgin að þínu mati og af hverju?

Þorbjörg: Ég hef nú reyndar ekki mikið úthald í búðir, en einsog allir vita þá vantar ekki búðirnar í London og í Köben hef ég oftar en ekki dottið inní frábærar second hand búðir og gert alveg reyfarakaup.

Fararheill: Hver er þín versta lífsreynsla erlendis?

Þorbjörg: Hef sem betur fer aldrei lent í slæmri reynslu á ferðalögum mínum; 7, 9 , 13. Við fjölskyldan lentum í vandræðum í Frakklandi á sínum tíma með Frakka sem neituðu að tala ensku, en ekkert sem reddaðist ekki frekar auðveldlega.

Fararheill: Hvaða erlendu staðir hafa komið þér mest á óvart?

Þorbjörg: Ætli Cape Town hafi ekki komið mér mest á óvart. Ótrúlega falleg borg og indælt fólk. Fátæktin er samt sem áður mikil og tilvalið að fara í sjálfboðavinnu þangað til að minna mann á hversu gott við höfum það og til að láta gott af sér leiða. Maður kynnist einnig alls konar fólki og fær ólíka og framandi menningu beint í æð.

Fararheill: Eitt það mikilvægasta að hafa í huga á ferðalögum er…?

Þorbjörg: Ætli það sé ekki einna helst mikilvægt að vera aldrei með of mikinn pening á sér í einu, helst hafa hann inn á sér og sleppa því að vera með tösku ef hægt er. Einnig er best að sleppa því að elta vafasama menn sem segjast vera að selja úr inn í dimm húsasund.