Vefmiðillinn Vísir.is greindi frá því fyrir skömmu að kvörtunum til Samgöngustofu vegna flugsamgangna og kröfum um bætur hefði snarfjölgað á skömmum tíma. Hverjum skyldi það nú vera að þakka?

Íslendingar þekkja fáir rétt sinn gagnvart flugfélögum og ferðaskrifstofum. Mynd Don Harder

Látum okkur nú sjá. Hvaða miðill hefur um átta ára skeið bent Íslendingum ítrekað á að sækja hiklaust rétt sinn um leið og eitthvað bjátar á í flugi eða ferðum? Vísir og Fréttablaðið? Neibb. Mogginn eða mbl? Neibb. Björn Ingi og Pressufólkið? Neibb. Kjarninn? Neibb. DV? Neibb. Túristi.is? Neibb…

Enginn vefmiðill íslenskur annar en Fararheill.is hefur undanfarin ár bent lesendum sínum á að láta hart mæta hörðu gagnvart flugfélögum eða ferðaskrifstofum ef ekki er allt með mjalla. Við meira að segja skammað landann fyrir að láta kúk yfir sig ganga þegar ekki stenst allt sem standast á varðandi flug og ferðir. Ekkert síður en þeir sem kaupa súra mjólk hjá Nettó eða mygluð jarðarber hjá Bónus. Þú átt rétt!

Þegar við byrjuðum að láta í okkur heyra voru kvartanir Íslendinga til Samgöngustofu alls 23 prósent af öllum kvörtunum vegna íslenskra flugfélaga eða ferðaskrifstofa. Í dag er hlutfallið farið að skjaga vel yfir 50 prósent.

Við hér hættum ekki fyrr en 100 prósent árangur næst í þessu stríði. Flugfélög og ferðaskrifstofur fengið að flengja okkur um áratugi án þess að til komi neitt í bætur nema tíu til fimmtán þúsund krónu afsláttur í næstu ferð!!!

Vesen á ferðalögum? Við eigum skýran rétt á bótum og ýmsu öðru. Mynd Stephen L Harlow

Það sirka 40 þúsund krónum lægri bætur en flugfélög og ferðaskrifstofur ÞURFA að greiða mögulega ef fólk færi í hart með málin hvort sem er beint gegn fyrirtækinu sem um ræðir, gegnum eigin lögfræðing eða gegnum Samgöngustofu.

Stöku einstaklingar gera lítið úr því að sækja sér bætur þó hótelherbergið sé fullt af kakkalökkum eða flugið hafi tafist um sex stundir. Það er jú ekki Heimsferðum um að kenna ef þú deilir herbergi á Spáni með kakkalökkum og maurum. Né heldur Wow Air að kenna að vél þeirra frá London bilaði á leið til Íslands.

Nema jú. Samkvæmt Evrópureglum er það þeim að kenna og um vörusvik að ræða. Þú pantaðir jú ekki herbergi með herbergisfélögum úr skordýraríkinu. Né heldur varstu að panta flug sem lenti um kvöld í stað morguns þegar þú bókaðir.

Hér óhætt að hafa í huga að almennt eru ferðaskrifstofur og flugfélög að grípa öll hálmstrá til að koma í veg fyrir að þú farir að nýta þér rétt þinn. Wow Air hefur á köflum boðið fólki bótagreiðslur vegna vesens, bætur sem fást greiddar út strax en þó aðeins gegn því að tækifærið sé gripið samdægurs. Þær bætur undantekningarlítið mun lægri en það sem fólk fær ef það lætur hart mæta hörðu og bíður í nokkrar vikur.

Ekki mikið skárra hjá ferðaskrifstofunum. Eitt skítlegt dæmi er um hjón sem dvöldu vikustund á Kanarí á hóteli sem verið var að byggja við og þar unnið frá sjö á morgnana til níu, tíu á kvöldin. Aldeilis flott slökun undir sólinni þar. Sömu hjón fengu samtals tíu þúsund króna AFSLÁTT AF NÆSTU FERÐ með sömu ferðaskrifstofu þegar farið var skriflega fram á bætur. Eins og einhver vilji ferðast aftur með ferðaskrifstofu sem lofar allt í hástert en reynist svo þvæla og vitleysa þegar til kemur.

Annað dæmi er um ferðaskrifstofu sem seldi fjölda fólks falsaða miða á leik í enska fótboltanum. Fjöldi fólks handtekinn við völlinn og þurftu að dúsa í fangaklefa í fjórar til sex stundir áður en breska lögreglan fékk staðfest að íslensk ferðaskrifstofa hefði keypt fölsku miðana. Bæturnar? Afsláttur á næstu ferð með sömu ferðaskrifstofu plús nokkrir þúsundkallar ef viðkomandi lofaði að tala ekki við fjölmiðla!!!

Þið megið níða okkur hér í svaðið. Það breytir ekki því að það er OKKUR að þakka að vitundarvakning hefur orðið meðal íslenskra ferðalanga á réttindum sínum.

Meira svona 🙂