Það virðist enginn maður með mönnum þessi dægrin nema vera búinn að að sóla sig á Tenerife eða búinn að bóka fljótlega í sólskinið á Tenerife. Og sumir nýta sér þann áhuga út í æsar.

Ekkert lággjaldaflugfélag í heimi krefur hugsanlega viðskiptavini um slíka upphæð fyrir sex stunda flug. Skjáskot

Fararheill oft og mörgum sinnum fengið bágt fyrir að benda á sitthvað vafasamt hjá lággjaldaflugfélaginu Wow Air. Við stöndum við það allt saman en þar með er ekki sagt að flugfélagið sé ekki mjög oft að bjóða lægsta verð á flugi hingað og þangað og hafi ekki almennt séð haft afar jákvæð áhrif á alvarlega fákeppni í flugi til og frá landinu. Gagnrýni jafngildir ekki skítkasti. Þvert á móti, sé vit í kolli lesenda og eigenda fyrirtækja sem við gagnrýnum, þá er fátt jafn uppbyggilegt og harðorð gagnrýni. Eins og það sé helber tilviljun að Wow Air hafi tekið upp slatta af okkar ábendingum gegnum tíðina 😉

En nú fer að líða að því að Wow Air geti ekki lengur kallað sig lággjaldaflugfélag að okkar mati. Nema einhver þarna úti geti fært góð rök fyrir að eðlilegt sé að flug AÐRA LEIÐ til Tenerife kosti 100.998 krónur og það án farangurs!!!

Það sést glögglega á meðfylgjandi skjáskoti af vef Wow Air. Vissulega um að ræða flug á „spennandi“ tíma tveimur vikum fyrir páska en jafnvel það afsakar ekki slíka græðgi. Verð á flugi aðra leið tveimur vikum fyrr fæst fyrir 20 þúsund. Að hoppa þaðan og upp yfir EITT HUNDRAÐ ÞÚSUND KRÓNUR hlýtur að vera heimsmet í verðbólgu. Eða græðgi eftir því hvernig litið er á hlutina.

Illu heilli hefur eigandi Wow Air aldrei viljað í viðtal við Fararheill. Hann tekur víst bara drottningarviðtöl hjá stórum miðlum í eigu milljarðamæringa á pari við hann sjálfan þar sem spurningar eru mjúkar eins og barnsrass og enginn er nær um eitt né neitt. Viðtal svona álíka líklegt og einkaviðtal Kjarnans við Ólaf Ólafsson glæpamann.

Sem er synd. Við hefðum gjarnan viljað spyrja Skúla hvað veldur því að LÁGGJALDAflugfélagið hans heimtar rúmar hundrað þúsund krónur fyrir sex stunda flug aðra leið til Tenerife án farangurs.