Tveir af fjórum hér á ritstjórn Fararheill eru komnir nóg til ára til að muna eftir einokunarprísum Icelandair þegar ekkert annað var í boði fyrir landann í flugi hér fyrir 20 árum síðan eða svo. En segið ekki að sagan endurtaki sig ekki með reglulegu millibili.

Sum fargjöld Wow Air eru lág eins og upplitið á bankafólki eftir Hrunið. En önnur fargjöld þau dýrustu á byggðu bóli. Skjáskot

Eða hvað skal kalla flug AÐRA leið frá París og heim án alls fyrir 69.999 krónur eða 70.898 krónur með bókunargjaldinu?

AÐRA LEIÐINA MEÐ EKKERT!!!

Það flokkast sem okur á öllum tungumálum heims. Það er hægt að finna flug fram og aftur til Asíu frá flestum borgum Evrópu fyrir 70 þúsund krónur.

Og detti einhverjum í hug að umrætt flug sé á morgun eða með örskömmum fyrirvara er það rangt. Tvær vikur eru í þetta flug Wow Air frá París.

Ekki er heldur um að ræða að örfá sæti séu eftir. Wow Air tiltekur það sérstaklega á bókunarsíðu sinni ef fá sæti eru eftir og ekkert slíkt er að finna á þessu tiltekna flugi.

Allt ofangreint merkir aðeins það og staðfestir að fégræðgi er að verða ákveðnum herra Mogensen fjötur um fót. Nema Wow Air sé að henda lággjaldastefnu sinni fyrir róða?