Þó illa ári hjá fjölmörgum á Íslandi þessi dægrin og einstaklingar og fjölskyldur verði að gera sér að góðu að skera útgjöld sín verulega niður er fátt dapurlegra en að neita sér um ferðalag. Dapurlegt vegna þess að fólk undir slíku álagi þarf nú sem aldrei fyrr að komast frá til að ná sönsum og andanum.

Þess utan eru það ekki aðeins fjölskyldur sem eiga erfitt uppdráttar. Svo er einnig um fyrirtæki, ekki síst ferðaskrifstofur og flugfélög, og þrátt fyrir dapurt gengi íslensku krónunnar eru mörg tilboðin þessi dægrin betri en þau hafa verið um áraraðir.

Hér eru nokkrar tillögur Fararheill.is til að komast í langþráð frí með minni tilkostnaði en nokkru sinni áður.

  • Skráðu þig á veflista flugfélaganna og ferðaskrifstofanna íslensku hafir þú ekki þegar gert það. Ellegar líttu daglega við á Fararheill.is sem birtir ekki aðeins öll tilboð umræddra aðila heldur ber þau líka saman.
  • Detti engin tilboð sérstök þar inn er ráð að leita á Icelandair.is eða Wow.is að ódýrustu flugferðum til London. Jafnvel þó flugfélögin íslensku séu ekki með neitt sérstakt á boðstólnum á að vera hægt að komast til London fyrir 30 til 40 þúsund krónur. Vert er að kanna einnig helstu flugleitarvélar eins og Kayak.com, Dohop.com eða Momondo.com því alloft finna þær hagstæðari verð en finnast á heimasíðum flugfélaganna.
  • Frá London er hægt að fljúga til hundruða áfangastaða innan Evrópu frá tvö þúsund krónum og uppúr með lágfargjaldaflugfélögum á borð við Germanwings, Ryanair, Easyjet eða BMI Baby.
  • Því fleiri saman því betra vegna þess að stærri hópur; fimm eða fleiri, getur leigt sér hús eða íbúð í stað þess að dvelja á hótelum. Tvær fjögurra manna fjölskyldur geta leigt sér fallegar villur á Spáni, Ítalíu eða í Frakklandi sem dæmi með öllum helsta aðbúnaði í eina viku frá 50 þúsund krónum ef vel er leitað. Vefsíður á borð við Searchvillas, Rentvillas eða Holiday Rentals eru fínar til þess brúks.
  • Þyki hótel vænlegri kostur er um að gera að leita á síðum á borð við Lastminute.com, Expedia.com eða Booking.com. Allar bjóða þær afslætti á útvöldum hótelum en í stað þess að panta gistingu þar er enn vænlegra að fara inn á heimasíður þeirra hótela sem best koma út. Oftar en ekki eru verðin þar enn lægri enda búið að skera út milliliðinn. Þetta útheimtir þolinmæði og stundum þrautseigju en getur verið vel þess virði ef peningar eru af skornum skammti.
  • Í síðasta lagi er um að gera að skoða svokallaða ferðamarkaði á borð við Holiday Hypermarket eða Travelzoo.com en þar má finna fínar pakkaferðir á fínum verðum að því gefnu að flogið sé frá London, Osló, Köben eða annarra stórborga.