Þó hvorki Icelandair né Iceland Express hafi enn ákveðið hvort eða hvenær internet aðgangur muni bjóðast í farþegavélum þeirra er sennilegt að flugfélögin geti aukið töluvert farþegafjölda sinn með slíku boði.

Allavega ef marka má könnun Gogo Inflight sem er fyrirtæki er sérhæfir sig í internetþjónustu í háloftunum í Bandaríkjunum. Segjast þar 40 prósent venjulegra ferðamanna og 50 prósent farþega í viðskiptaerindum ekki hika við að skipta frekar við flugfélag sem byði nettengingu um borð en ekki.

Svo undarlegt sem það er þá er Evrópa og evrópskt flugfélög í fornöld þegar kemur að netaðgangi um borð því hartnær öll stóru flugfélög Bandaríkjanna bjóða slíka þjónustu og hafa gert um tíma. Það er þó enn takmarkað við ákveðnar vélar flugfélaganna og ekki enn í boði á öllum leiðum. Til dæmis er slíkt í boði hjá báðum samstarfsfélögum Icelandair í Bandaríkjunum, jetBlue og Alaska Airlines, en netaðgangur hjá því fyrrnefnda er þó takmarkaður.

Fararheill.is forvitnaðist um það í vor hvort slíkt stæði til hjá Iceland Express eða Icelandair en ekki var það á dagskránni þar í bili. Hins vegar fer þeim fjölgandi evrópsku flugfélögunum sem þetta bjóða. Nokkur flugfélög, á borð við British Airways, bjóða slíkt á viðskiptafarrými sínu meðan önnur á borð við Norwegian bjóða þetta öllum sínum farþegum.