Skip to main content

Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing var ekki á góðum stað áður en faraldur og farbann kom til sögunnar. Nú er fyrirtækið hreint og beint í krísu.

800 Max-rellur jarðsettar í veröldinni og næstu mánuði og jafnvel ár munu flugfélög varla þurfa margar nýjar vélar. Mynd Boeing

Ferðalög flestra í frosti á þessum síðustu og verstu og morgunljóst að jafnvel þó takist að vinna bug á covid-faraldrinum á næstu mánuðum tekur langan tíma að fá fólk til að ferðast á nýjan leik. Það er jú djúpt á hræðslu hjá mörgun.

Það aftur mun hafa áhrif á flugfélög heimsins langt út árið hið minnsta og þar með um leið flugvélaframleiðendur. Og þar er Boeing með allt niðrum sig.

Fyrirtækið hefur, langt á undan áætlun, nýtt sér tvær risastórar lánalínur frá bönkum og hefur í engin hús að venda ef það fjármagn dugar ekki til. Því einnig má heita víst að bankar almennt verði ekki heitir fyrir lánveitingum þegar líða fer á árið og hvert fyrirtækið á fætur öðru fer yfir um.

Fyrirtækið er enn að glíma við Max-vandamálið. 800 rellur jarðsettar víða um heim og enn hafa flugeftirlitsaðilar ekki gefið fyrirtækinu grænt ljós á þær rellur. Líkast til nokkrir mánuðir í að svo verði.

Fyrirtækið hefur hætt að ráða nýtt fólk, sett á yfirvinnubann og margir undirverktakar neyðast nú til að segja upp fólki. Það aftur þýðir að það getur tekið verulegan tíma að koma framleiðslu af stað á ný þegar og ef það verður.

Boeing er auðvitað fyrirtæki af því taginu að stjórnvöld munu grípa inn í ef gjaldþrot er líklegt og kosta til skattfé til að peppa það upp á ný. Það mun ekki auka traust á fyrirtækinu hætishót hvorki innanlands né utan.