Óhætt er að fullyrða að Íslendingar flestir hafa litla þekkingu eða reynslu af því að vera neitað um far í áætlunarflugi enda afar sjaldgæft hérlendis. En það gæti verið að breytast og þarf ekki að vera slæmur hlutur.

Ekki tóm leiðindi alltaf þegar fólk er neitað um flugferðir
Ekki tóm leiðindi alltaf þegar fólk er neitað um flugferðir

Erlendis er talað um „bumping“ þegar flugfélög yfirbóka vélar sínar og allir sem áttu bókað láta sjá sig á tilsettum tíma. Hérlendis er talað um að vera „neitað um far“ sem hljómar afar neikvætt eins og fólk hafi gert eitthvað af sér. Sem er þó ekki málið.

Raunin er nefninlega sú að flugfélögum um heim allan er heimilt að selja fleiri miða í vélar sínar en pláss er fyrir. Þar með eru fyrirtækin í raun að veðja á að forföll verði hjá hluta þeirra sem bókað hafa og reynslan sýnir að það er líka staðreynd á flestum vinsælli flugleiðum. Með þessu móti geta fyrirtækin selt fleiri sæti en ella og því grætt meira fyrir vikið.

Sökum smæðar íslenska markaðarins og einokunar Icelandair á mörgum flugleiðum um áratugaskeið hafa slík tilfelli gagnvart farþegum frá landinu eða til verið tiltölulega sjaldgæf en það gæti breyst ört nú þegar umferð ferðafólks til Keflavíkurflugvallar og frá eru orðin nægilega mikil til að vélar íslensku flugfélaganna eru nánast 100 prósent í flugi og vöxturinn auk þess nægilega mikill til að erlend flugfélög fljúga hingað sem aldrei fyrr.

Ef engin er hraðferðin …

Það hljómar vissulega illa að vera neitað um far en hvað þýðir það á mannamáli og hver er okkar réttur í slíkum tilvikum?

Glöggir tóku eftir að okkur hjá Fararheill finnst það ekki endilega slæmt mál að lenda í þeim aðstæðum. Það veltur á hvar fólk er, hvert það ætlar og síðast en ekki síst hversu mikið stress er að komast á milli.

Að vera neitað um far skiptist í tvo hluta. Annars vegar er vélin yfirbókuð og flugfélagið óskar eftir sjálfboðaliðum til að vera eftir og svo hitt að bjóði enginn sig fram er flugfélagið nauðbeygt til að koma einhverjum frá borði sem sestur er eða meina einhverjum að ganga um borð sem er í röðinni. Það fólk undantekningarlítið valið úr hópi þeirra sem sitja á ódýrasta farrými.

Í mörgum tilfellum er vafalítið brýn þörf á að komast á leiðarenda sem fyrst. En það er líka svo, jafnvel þó við gerum okkur ekki grein fyrir því þá, að það munar okkur mörg litlu eða engu hvort heimkoma er degi fyrr eða degi seinna. Við erum jú oft í fríi þegar verið er að flakka erlendis og jörðin ferst ekki þó ferðin taki sólarhing í viðbót. Við erum flest ekki jafn ómissandi heimavið og við teljum okkur trú um.

Evrópa og annars staðar

Við slík tækifæri er hægt að gefa sig fram fyrir flugferð og bjóðast til að vera eftir sé vélin yfirbókuð. Velflest flugfélög þiggja slíkt með þökkum. Við þær aðstæður átt þú rétt á að fá flug til ákvörðunarstaðar svo fljótt sem auðið er, hótel og mat ef slíkt er ekki í boði fyrr en daginn eftir plús þá bætur sem viðkomandi kemst að samkomulagi um við flugfélagið. Mörg flugfélög dingla gulrót að auki sem getur verið í formi flugmiða eða afsláttarkjara síðar meir. Hér gildir að standa fast fyrir við samningaumleitanir því ert að gera þeim greiða og þau eiga að koma til móts við þig. Reyndu að fá beinharða peninga því alls kyns takmarkanir eru á miðum sem gefnir eru til þeirra sem sýna þennan lit. Það er þó ekki alltaf í boði.

Á hinn bóginn getur þurft að henda þér út án þess að þú viljir. Þá skapast um leið skaðabótaskylda nema flugfélagið geti komið þér á áfangastað eftir öðrum leiðum eigi síðar en fjórum stundum eftir að þú áttir upphaflega að lenda. Þær bætur eru frá 250 til 600 evrum (38.000 til 92.000) eftir lengd flugs. Bætur skal greiða samstundis samkvæmt Evrópureglum og að auki fær viðkomandi hressingu og mat sér að kostnaðarlausu. Bæturnar breyta ekki því að flugfélagið þarf samt sem áður koma þér á áfangastað eða endurgreiða viðkomandi strax þá flugleggi sem viðskiptavinurinn missir af vegna atviksins. Farþeginn fær því bætur strax, mat og hressingu strax plús endurgreiðslu strax ef allt er eðlilegt. Hér þarf fólk þó yfirleitt líka að standa fast á sínu og þekkja rétt sinn 100 prósent. Láta hart mæta hörðu því starfsfólki flugfélaganna er fyrirskipað að bjóða ekkert að fyrra bragði.

Annars staðar í heiminum en í Norður Ameríku og Evrópu er bótaréttur eða reglur mismunandi og ekki sameiginlegar. Þannig gilda til dæmis mismunandi reglur fyrir flug með LAN frá Chile og TAM frá Brasilíu. Þær verður að kynna sér á vefum flugfélaganna eða leita uppi neytendamiðstöðvar í þeim löndum sem um ræðir.

Áður en fólk blótar í sand og ösku ef því er gert að vera eftir er öllu nær að taka slíku með bros á vör. Það þýðir meiri tíma á erlendri grundu, oftast nær fólki að kostnaðarlausu og það getur varla verið leiðinlegt að standa uppi með frímiða út í heim í veskinu ellegar tugþúsunda króna bætur fyrir það sem verður aldrei meira en sólarhrings töf á heimkomu.