Einn af ömurlegri, eða stórkostlegri dönsum, sem fyrirfinnast eftir smekk manna er kongadansinn fjörlegi þar sem menn hrista haus og búk af ástríðu. Slíkur dans er einn af hápunktum kúbverskrar menningarhátíðar sem fram fer á Key West eynni í Bandaríkjunum seinnipart maí.

Þann 27. maí minnast eyjaskeggjar kúbverskra áhrifa með kongadansi allt Duval stræti í Key West en það er sennilega eina gata heims sem nær frá hafi að flóa. Austanmegin er Atlantshafið en vestanmegin er komið að Mexíkíflóa.

Spölurinn er ekki ýkja langur heldur en þessi gata verður sjónarspil þann 28. maí þegar hópar fólks í kúbverskum búningum munu dansa frá einum enda til annars og minna þar með á að Key West var lengi vel undir miklum áhrifum frá Kúbu. Voru þar framleiddir bæði vindlar og sykur með sama hætti og gerðist á Kúbu sem aðeins er í rúmlega hundrað kílómetra fjarlægð frá Key West.

Öllum er frjálst að taka þátt og um að gera séu Íslendingar á ferð á þessum slóðum en krafa er gerð um að fólk sé í einhvers konar konga búningi. Hvað svo sem það þýðir.