Borgin Ríó de Janeiro kallar upp í hugann margar yndislegar myndir. Stórkostlegt veðurfar, klassískar strendur og vinalegt fólk fram úr hófi að mestu leyti. Svo ekki sé nú minnst á kjötkveðjuhátína.

Það fer ekki brosið af fólki í Brasilíu yfir kjötkveðjuhátíðina en stundum er flagð undir fögru brosi. Mynd TerryGeorge
Það fer ekki brosið af fólki í Brasilíu yfir kjötkveðjuhátíðina en stundum er flagð undir fögru brosi. Mynd TerryGeorge

Allmargir ferðasjúklingarnir hafa látið sig dreyma um að upplifa kjötkveðjuhátíð borgarinnar sem er rjóminn ofan á allt annað í þessari stórborg Brasilíu en hátíðin er ekki heimsþekkt fyrir ekki neitt.

Kjötkveðjuhátíðin gerir borgina enn skemmtilegri en ella og sá sem ekki hrífst af litunum, skreytingum, dönsunum, drykkjunni og tónlistinni en umfram allt gleðinni í heimamönnum á þessum tíma er sennilega þegar kominn undir græna torfu.

En Ríó er ekki borg af því taginu þar sem það er sérstaklega jákvætt að týnast í eða villast. Þaðan af síður er hún örugg enn sem komið er því glæpir eru tíðir. Tíðastir eru þeir einmitt meðan á kjötkveðjuhátíðinni stendur þegar misgáðir ferðamenn gleyma sér í stemmningunni og annaðhvort villast, drekka yfir sig eða gera eitthvað þaðan af verra.

Glæpir eru reyndar svo mikið vandamál í Ríó og öðrum borgum landsins yfir hátíðina að bandaríska utanríkisráðuneytið hefur Ríó yfir kjötkveðjuhátíðina á sama stalli og ferðalög til Írak. Allan vara skal hafa á sér.

Ritstjórn hefur upplifað kjötkveðjuhátíðina einu sinni og eftir þá reynslu er óhætt að gefa öðrum þessi ráð að fylgja. Þau gilda alls staðar í borgum landsins því karnivalið er alls ekki einskorðað við Ríó.

♥  Geyma verðmætin heima

  • Tugþúsundir misyndismanna geta ekki beðið eftir Kjötkveðjuhátíðinni því þá er gósentíð í bransanum. Það stafar af því að ansi margir ferðamenn notast ekki við guðsgjöfina heilbrigða skynsemi og gleyma sér í stuði og skemmtilegheitum. Því miður gleyma flestir að geyma verðmæti sín á hótelinu og eru miskunnarlaust rændir. Yfir tíu þúsund tilkynningar um veskjaþjófnað bárust lögreglu á síðustu kjötkveðjuhátíð. Það fer langt með að eyðileggja alla stemmingu.

 Geyma verðmætin heima

  • Ekki endurtekning heldur áminning um að geyma sönn verðmæti eins og skartgripi, dýr úr eða annað slíkt heima ÁÐUR en farið er til Brasilíu. Brasilískir þjófar eru atvinnumenn og þekkja mætavel dýra gripi úr fjarlægð. Þeir hika heldur ekki við að hóta dauða ef erfitt reynist að fá ferðamenn til að láta skart sitt af hendi. Á kjötkveðjuhátíðinni 2012 urðu yfir hundrað erlendir ferðalangar fórnarlömb vopnaðs ráns.

♥  Pungaðu út fyrir alvöru hóteli

  • Það er freistandi að taka ódýrt gistihús meðan á hátíðinni stendur enda hótelin hér tiltölulega dýr og á því hafa ekki allir efni. En það getur vel verið þess virði að spreða í betri gistingu því á síðasta ári réðust vopnaðir menn inn á þrjú ódýrari gistihús í borginni og höfðu brott með sér öll verðmæti allra gesta meðan á kjötkveðjuhátíð stóð. Slíkt ívið auðveldara þá því þunnskipuð lögregla getur ekki bæði fylgst með kringum hátíðina og vaktað borgina um leið.

♥  Slepptu ferð í fátækrahverfin

  • Það hefur verið nokkuð í tísku síðustu árin að fara svokallaðar favelas ferðir þar sem útvaldir ferðaþjónustuaðilar fá aðgang að fátækrahverfum borgarinnar til að sýna ferðamönnum dýrðina. Það hefur þó gerst oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að ferðamönnum er hótað á slíkum ferðum og jafnvel haldið tímabundið í gíslingu meðan krafist er fleiri seðla. Ekkert er þar öruggt og sérstaklega ekki meðan á karnivalinu stendur því þá hefur lögreglan nóg annað en gera en sinna vöktum í fátækrahverfunum.

♥  Treystu engum

  • Betlarar eru margir í borginni og ferðamenn fá tonn af tilboðum um allt frá kynlífi til leiðsagnar um borgina. Sleppa öllu slíku því oftar en ekki er um svindl að ræða. Viðkomandi leiða þá ferðamennina í gildru þar sem þjófar geta hirt allt verðmætt án vandræða.