Lengi vel hafa fjölmargir Íslendingar gert sér far um að eiga fínt postulín í skápum sínum fyrir tyllidaga. Framleiðandi slíkra vara oftar en ekki hið þekkta danska fyrirtæki Royal Copenhagen. Það fyrirtæki rekur afskaplega fínan útsölumarkað í Köben.

Postulín einhver? Feitir afslættir á vörum Royal Copenhagen í Kaupmannahöfn
Postulín einhver? Feitir afslættir á vörum Royal Copenhagen í Kaupmannahöfn

Royal Copenhagen er, fyrir þá sem ekki vita, eitt allra elsta fyrirtæki heims hvorki meira né minna og það líklega vegna þess að vörur þeirra eru gæðavörur frá a til ö. Það á líklega líka við um það postulín sem til sölu er á útsölumarkaði fyrirtækisins þó reyndar þangað fari ekkert fyrsta flokks.

Það breytir ekki því að úrvalið er geysilega fínt og því til staðfestingar nægir að nefna að þessi verslun er á tveimur hæðum. Bollar, plattar, stell og allt mögulegt annað úr postulíni úr smiðju RC til sölu á verulegum afslætti og allt upp í 70 prósent ef marka má auglýsingar sem hér hanga uppi.

Verslunin finnst við Søndre Fasanvej í Frederiksbjerg skammt frá Frederiksbjerg Slot og þangað er einfalt að fara með strætisvögnum 9A og 4A. Þó kannski ráð sé að taka bílaleigu- eða leigubíl ef fólk ætlar að eyða hér peningum. Ekki sniðugasti hlutur í heimi að þvælast í strætisvagni með fullt fangið af postulíni.

Heimasíðan hér.