Á Íslandi er vart til sú bygging sem orðin er fimm mínútna gömul sem ekki fer rakleitt á lista Húsafriðunarnefndar og enginn fær notið það sem eftir lifir.

Ýmsar kynjabyggingar rísa í Amsterdam yfir Museumnacht. Frábær tími til að heimsækja.
Ýmsar kynjabyggingar rísa í Amsterdam yfir Museumnacht. Frábær tími til að heimsækja.

Það er aðeins meira lýsi í Hollendingum sem hugsa sig ekki tvisvar um að brúka elstu byggingu Amsterdam undir drynjandi gotneskt þungarokk. OK, það er reyndar undantekning en staðreynd engu að síður.

Þar í landi telja menn nefninlega eðlilegt að nota hlutina jafnvel þó gamlir séu og ekkert er eldra í allri Amsterdamborg en De Oude Kirk við Oudekersplein.

Þessi 709 ára gamla kirkja breytist einu sinni á ári í kvikmyndahús þar sem gömlum klassískum kvikmyndum er blastað á stærsta vegg hennar fjölda manns til yndisauka. Ekki nóg með það heldur er það raunveruleg hljómsveit sem spilar undir á meðan og þar þenja menn gítara og bassa eins og enginn sé morgundagurinn.

Enda er þetta líka Safnakvöldið, Museumnacht, þegar mun meira fútt er í gangi í Amsterdam en venjulega. Það er sama kvöld og hin virtustu söfn eru opin til miðnættis að lágmarki og bjór og vín í boði eins og hver og einn vill og getur. Sama kvöld og almenningsklósett, strætisvagnar, bátar og barir breytast tímabundið í listasöfn öllum til ánægju.