Til er fjöldi Íslendinga sem anda ekki rólega nema taka þátt í árlegu maraþonhlaupi Timbúkistan, hlaupa upp Esjuna átta sinnum í viku og eiga hlaupahjól í svefnherberginu til æfinga svona á kvöldin þegar ást og atlot við betri helminginn þykja óspennandi.

Uppátæki sem fólk man til hinsta dags: Sopelana nektarhlaupið.

Gott og blessað. Fínt að fólk hafi áhugamál ef lífið og tilveran er annars í leiðinlegri kantinum.

Fyrir okkur hin sem látum hverjum degi nægja sína þjáningu en kunnum engu að síður að slá okkur upp þegar gállinn er á er ein hlaupakeppni sérstaklega áhugaverð: Carrera Nudista Sopelana.

Auðvitað hefur þú aldrei heyrt á þá keppni minnst. Fyrir því tvær ástæður hið minnsta. Annars vegar fer hún fram í Baskalandi á Spáni þaðan sem okkur berast aldrei fregnir nema ETA sprengi ráðherra eða sendiherra í loft upp. Hin ástæðan sú að þetta ágæta hlaup er NEKTARHLAUP. Þetta er með öðrum orðum, okkur vitandi, eina nektarhlaupakeppni heims að frátöldu nektarsprikli á hátíðum eins og Hróarskeldu.

Ekki fara í grafgötur með að keppnin er alvöru þó auðvitað sé ofsögum sagt að umrædd keppni sé þekkt eða fræg. Það er hún ekki þó Spánverjar margir hafi heyrt af uppátækinu enda verið formleg keppni um tíu ára skeið. Hér þarf að skrá sig með góðum fyrirvara og hlaupið er fimm kílómetrar alls eða svona æði fín vegalengd fyrir þá sem ekki eru að sprikla í íþróttum daginn út og inn hina 364 daga ársins.

Allra best er að Sopelana nektarhlaupið fer fram á ljúfri sandströnd Barinatxe í Baskalandi en sú strönd öll er eyrnamerkt þeim er vilja sóla sig í fæðingargallanum. Ströndin sú, eins og velflestar strendur Baskalands, er svona um það bil hundrað sinnum fallegri en yfirkeyrðar túristastrendur Spánar til suðurs og austurs. Eins og meðfylgjandi myndband ber með sér.

PS: Sopelana-strönd er í sjö kílómetra fjarlægð frá hinni þokkalega spennandi borg Bilbao. Láttu þig hafa heimsókn hingað ef þvælingur um Baskaland er á döfinni. Og hér má skrá sig í hlaupið 🙂