Flest þekkjum við af reynslu steingeldar skoðunarferðir um borgir heimsins þar sem ekið er um og einhver kunnugur staðháttum bendir til hægri og vinstri eftir atvikum og upplýsir um einhver merkilegheit. Slíkir túrar falla fljótt í gleymskunnar dá nema líf og ástríða sé í leiðsögumanninum.

Sennilega skemmtilegasta pöbbaröltið í Dublin. Mynd DLPC
Sennilega skemmtilegasta pöbbaröltið í Dublin. Mynd DLPC

Þess vegna er sérstaklega upplífgandi að detta inn í pöbba- og menningartúr hjá hópi fólks sem kallar sig Dublin Literary Pub Crawl og býður stutta göngutúra milli pöbba í miðborg Dublin.

Það kannski hljómar ekkert sérstaklega merkilegt að tölta milli bara. Lítið mál að gera það án þess að greiða krónu fyrir. En þessir menn gera það að skemmtilegu ævintýri. Fyrir það fyrsta eru barir og menning á Írlandi nánast einn og sami hluturinn. Enginn listamaður írskur með snefil af virðingu hefur ekki verið með annan fótinn inni á pöbb hér allt sitt líf og gildir nánast einu hvaða írska stórstirni maður velur.

Og þar liggur hundurinn grafinn á pöbbarölti Dublin Literary Pub Crawl. Þeir rölta nefninlega bara milli bara sem tengjast með einum eða öðrum hætti frægum listamönnum þjóðarinnar og bæði segja sögur og jafnvel leika sögur af þeim frægu köppum. Þeir margir góðir eins og Oscar Wilde, James Joyce, Seamus Heaney og Samuel Beckett svo örfáir séu nefndir.

Staffið hjá Dublin Literary Pub Crawl kann sögur af þessu fólki öllu og það í hundraðatali og þátttakendur fá það sterklega á tilfinninguna að þeir hafi bara skrambi gaman að því að leiða fólk í sannleikann um listamenn þjóðarinnar. Þar hjálpar auðvitað að bjór er hafður um hönd.

Fararheill mælir sterklega með þessu pöbbarölti. Það er hvorki langt né erfitt en fjórir til fimm pöbbar eru heimsóttir að meðaltali í hverri ferð plús stopp í Trinity háskólanum. Túrinn hefst öll kvöld klukkan 19:30 stundvíslega frá Duke barnum í miðbænum (sjá kort.) Heimasíðan hér en engin þörf að panta neitt nema um stærri hópa sé að ræða. Túrinn kostar um 1800 krónur á mann.