Fátt leiðist okkur meira en að fá kristilegan boðskap óumbeðið inn um lúguna hér hjá Fararheill. Við fengum eina sex bæklinga inn á stasjón fyrr í þessari viku og fyrir utan óguðlegan boðskapinn vakti athygli okkar hve mjög einkennismerki GlowIsland minnir á lógó ferðaskrifstofunnar Heimsferða. Svo mjög að eðlilegt er að ferðaskrifstofan höfði mál eigi síðar en í gær.

Kannski var Jesús til og kannski ekki. Við hér mjög efins og kunnum því illa þegar kumpánar frá hinum og þessum kirkjulegum samtökunum banka upp á og vilja bjarga sálum okkar. Eða henda inn tonnum af bæklingum þegar enginn er við.

GlowIsland er einn þeirra aðila sem vilja bjarga sálum okkar og það með því að prenta tonn af bæklingum og þar með fella dauðadóm yfir þúsund lifandi trjám í Eistlandi. Það hörmung út af fyrir sig. En það vakti mikla athygli allra á ritstjórn á lógó, merki, GlowIsland er næstum hið sama og ferðaskrifstofunnar Heimsferða.

Það má glögglega sjá á merkinu hér að ofan þar sem samtökin segjast veita birtu inn í veröld okkar allra.

Berum það saman við lógó Heimsferða hér til hliðar. Lógó sem er töluvert eldra. Líkindin slík að forsvarsmenn Heimsferða ættu strax á mánudagsmorgun að höfða mál og heimta feitar bætur.

Halelúja!