Skip to main content

K affihús er ekki alltaf kaffihús. Dragi það einhver í efa skal sá hinn sami reyna að kveikja sér í hasspípu á hefðbundnu kaffihúsi í Amsterdam í Hollandi. Sá sami fær fót í rass hið snarasta og spark út á götu. Á hinn bóginn ertu litinn hornauga ef þú ferð á kaffihúsið við hlið þess fyrrnefnda og og færð þér aðeins latte og kleinu.

Eitt af frægari „kaffihúsum“ Amsterdam er Bulldog en slík kaffihús skipta tugum í borginni. Mynd CC

Eitt af frægari „kaffihúsum“ Amsterdam er Bulldog en slík kaffihús skipta tugum í borginni. Mynd CC

Engar grafgötur þarf að fara í með að vinsældir svokallaðra kaffihúsa í Amsterdam meðal ferðamanna eru tilkomnar vegna þess að óvíða annars staðar í Evrópu er óhætt að reykja hass eða kannabis í makindum í hægindastól en á þartilgerðum kaffihúsum í þeirri ágætu borg. Dregur þetta að töluverðan fjölda ferðamanna sem nánast eingöngu koma til borgarinnar til þess arna.

En hvernig þekkir maður sundur hefðbundin kaffihús sem bjóða bara salatrétti og kaffi og hina óhefðbundnu þar sem ráð er fyrir gert að viðskiptavinir versli eina jónu hið minnsta?

Um 150 hasskaffihús má finna í Amsterdam en þeim hefur fækkað til muna hin síðari ár enda alþjóðasamfélagið ráðist harkalega á hollenskt stjórnvöld fyrir að leyfa slíkt. Það hefur haft áhrif og slíkum kaffihúsum utan Amsterdam fækkað enn meira.

Strangt til tekið er kannabis ólöglegt nema það sé reykt á umræddum kaffihúsum. Má hver einstaklingur eldri en 18 ára reykja sem nemur fimm grömmum af hassi eða kannabis daglega en enginn heilvita einstaklingur reykir svo mikið á einum sólarhring. Fyrir óvana dugar einn smókur eða tveir af góðu efni til að vitna veröldina breytast lítið eitt á skömmum tíma.

Einstaklingar þurfa einnig að vera allverulega skakkir til að sjá ekki muninn á kannabis kaffihúsi og hefðbundnu kaffihúsi jafnvel þó hin fyrrnefndu séu oft ekki sérstaklega merkt. Þó má yfirleitt ráða það af litríkum skiltum oft tengdum Jamaíka og víða glymur reggímúsík úr hátölurum staðanna. Þá eiga, samkvæmt reglum, öll kaffihús sem selja fíkniefni að vera með ferkantaðan hvítan og grænan miða í fordyri eða á áberandi stað sem merktur er „coffeeshop.“  Sé slíkt ekki sjáanlegt má jafnan finna lykt fyrir utan slíka staði og sé engin slík til staðar er vænlegast að kíkja á gluggann og ganga úr skugga um að þar innandyra sé fólk að reykja.

Nokkur slík kaffihús eru með verðlista á áberandi stað innandyra en á öðrum verður að forvitnast hjá barþjóni hvað í boði sé og hver kostnaðurinn sé. Selt er eftir grammi og kostar grammið frá 1600 krónum og uppúr eftir styrk efnanna.

Á þessu korti má sjá öll kannabis kaffihús Amsterdam.