Skip to main content

Æði margt skrýtið í kýrhausnum og öðrum tilteknum hausum líka. Til dæmis sú staðreynd að árið 2018 fæst tólf stunda flug fram og aftur til Kanaríeyja oft niður í 30 til 40 þúsund krónur á kjaft. En langi fólk í fjórtán stunda flug fram og aftur til Flórída er algjör hending að komast undir 80 til 90 þúsund krónum per haus.

Miklu, miklu dýrara að fljúga til Flórída en Kanaríeyja þó ekki sé mikill munur á vegalengd. Hvers vegna er það?

Við fengum athyglisverða spurningu frá lesanda fyrir skömmu sem vildi gjarnan vita hvers vegna svona ægilegur verðmunur væri á flugi til Flórída annars vegar og Kanaríeyja hins vegar.

Það auðvitað ekkert nýtt. Til Flórída hefur aldrei verið komist héðan fram og aftur á því sem hægt er að kalla eðlilegu verði. Þegar þetta er skrifað sýnist okkur allra lægsta fargjaldið til og frá Tampa vera 88 þúsund krónur og litlu lægra til Orlando samkvæmt vef Icelandair.

En hvers vegna þessi ægilegi verðmunur til dæmis í samanburði við flug fram og aftur til Kanaríeyja. Flug til Kanarí tekur sex stundir tæpar og tólf samtals meðan skotterí til Flórída tekur sjö stundir aðra leið og fjórtán stundir alls fram og aftur. Það virðist ekki það mikill munur hvað lengd varðar að það verðskuldi 140 prósenta verðhækkun!!!

Án þess að vita fyrir víst má telja líklegt að áhöfn vélar sem flýgur til Flórída þurfi hvíld í kjölfarið því samkvæmt reglum mega flugmenn til dæmis ekki fljúga lengur en hámark fimmtán stundir án hvíldar Svipaðar reglur gilda um aðra áhöfn. Icelandair þarf því annaðhvort að senda alla áhöfnina á hótel í tæpan sólarhring eða svo eða geyma ferska áhöfn í Tampa eða Orlando sem leysir hina af hólmi. Slíkt auðvitað strax til þess fallið að stórauka kostnað ef rétt er.

Til Kanaríeyja og heim aftur er þó fræðilega hægt að skottast á innan við fimmtán klukkustundum að því gefnu að ekkert komi upp á og samkvæmt skoðun á vefmiðlum flugfélaga sem þangað fljúga virðist það raunin að það er gert. Flugfélagið sparar sér gistikostnað og missir vél ekki úr flugi í tæpan sólarhring meðan gengið er að hvíla sig.

Ofan á það má efalítið einnig planta einokunarálagningu sem Icelandair hefur lengi notfært sér út í æsar. Flugfélagið var um áraraðir eitt um hituna til Flórída og er eitt um hituna þessa stundina líka. Um að gera að smyrja vel á landann af því tilefni.

Þá skal ekki útilokað að fleiri hlutir skipti hér máli eins og flugvallargjöld og slíkt auk þess sem gisting almennt í Flórída er töluvert dýrari pakki en á Kanaríeyjum.