Ef marka má bókunarvélar flugfélaganna Primera Air og Wow Air fækkar valkostum okkar Íslendinga töluvert strax í marsmánuði. Þá hætta bæði flugfélögin að fljúga beint til Kanarí.

Engar ferðir til Kanarí með þessum aðilum frá og með aprílmánuði.

Það miður því Kanarí er þrátt fyrir allt sjóðheitur áfangastaður landans jafnvel þó Tenerife hafi síðustu misserin náð vinsældaforskoti en til Tenerife verða áfram ferðir í boði hjá báðum aðilum.

Síðustu ferðir beggja flugfélaga til nágrannaeyjunnar Kanarí verða í lok mars og þó ekki sé útilokað að Kanarí komist aftur á dagskrá þegar fram líða stundir verður það ekki fyrr en í lok árs í fyrsta lagi því flugfélögin breyta ekki flugáætlun sísona.

Að því sögðu er komist til Kanarí með Wow Air í janúar, febrúar og mars á fantagóðum prís eða kringum tíu þúsund krónur aðra leið án farangurs. 25 þúsund krónur eða svo með einni tösku sem er fjári gott tilboð. Töluvert kostnaðarsamara að fljúga með Primera Air. Lágmarksverð hvora leið fyrir sig er tæplega 20 þúsund krónur eða tæplega 50 þúsund á mann báðar leiðir með eina tösku. Helmingi dýrara en að bóka með Wow Air á sama tímabili.

Fyrir þau ykkar sem alls ekki vilja skipta Ensku ströndinni á Kanarí út fyrir Amerísku ströndina á Tenerife er þó ekki alveg lok lok og læs. Það er einfalt, fljótlegt og þokkalega ódýrt að fljúga milli eyjanna tveggja sé þörf á. Með sæmilegum fyrirvara má komast á milli fyrir þetta tíu þúsund krónur ódýrast á mann báðar leiðir.