Árið 2018 rétt að detta í garð. Tæp þrjátíu ár síðan internetið hélt innreið sína til Íslands með tilheyrandi loforðum um stóraukna og betri upplýsingagjöf til handa öllum um allt undir sólinni. Ríkisfyrirtækið Ísavía vill þó enn ekki segja okkur hvers vegna flugi er aflýst eða seinkar fram úr hófi.

Er ekki sjálfsögð þjónusta að upplýsa hvers vegna flugfélag fellir niður flug sísona? Ekki að mati Ísavía. Skjáskot

Forsvarsmenn Ísavía svona dæmigerðir plebbar af gamla skólanum sem halda að ábyrgð ríkisfyrirtækja sé fyrst og fremst gagnvart fyrirtækjum meðan skitinn almenningur má eiga sig. Þybbinn forstjórinn enda frægur að endemum fyrir að taka fegins hendi við fríum flugferðum frá Icelandair og draga betri helminginn með í túra hingað og þangað. Allavega þangað til upp komst og karl þóttist ekkert vita um lög og reglur opinberra starfsmanna. Sem banna slíkt.

Sá þybbni er enn að störfum og eðli máls samkvæmt fáum við aldrei að vita hvers vegna hinum og þessum flugferðum til Keflavíkur eða frá Keflavík er aflýst eða þeim seinkar um fleiri klukkustundir.

Það má glöggt sjá á meðfylgjandi skjáskoti frá þeim drottins degi 14. desember 2017. Nánast allar flugferðir út í heim á tíma þennan daginn ef frá er talin brottför vélar WW814. Því flugi Wow Air til Gatwick var aflýst og sama gildir um flugið til baka frá Gatwick til Keflavíkur.

En farþegar eru engu nær um HVERS VEGNA Wow Air, eða aðrir sem aflýsa flugi, gera það sísona með litlum og stundum engum fyrirvara.

Það er hins vegar sjálfsögð lágmarks þjónusta að tiltaka hvað vesenið er. Flug FW876 tefst um fimm klukkustundir vegna veðurs. Bilun í flugi BS251 veldur því að fluginu er aflýst…. Og svo framvegis.

Það er lágmarks þjónusta sökum þess að flugfélagið sjálft er oft á tíðum ekkert að gefa farþegum eða vinum og ættingjum sem bíða flugs, upplýsingar um feitar tafir og jafnvel ekki aflýsingu fyrr en viðkomandi er mætt/-ur á völlinn. Mýmörg dæmi um það og ástæðan sú að aflýsing er yfirleitt alltaf fokk-öpp hjá flugfélaginu og það vilja þau ekki opinbera.

Þess vegna á Ísavía, sem heldur úti upplýsingavef um brottfarir og komur véla, að upplýsa fólk hvaða ástæður liggja að baki því að ferðir falla niður eða tefjast alvarlega. Minnsta mál í heimi að krefjast þeirra upplýsinga til að viðskiptavinir í Leifsstöð fái sem mestar og bestar upplýsingar hverju sinni. Verði flugfélög ekki við óskum um ástæður eru fésektir alltaf sterkar inn. 200 þúsund króna sekt fyrir að upplýsa ekki um alvarlega töf eða aflýsingu er upphæð sem flestir forstjórar yrði ekki ánægðir með.

Viðskiptavinir Ísavía í Keflavík gætu hins vegar andað léttar og eða þeir sem eiga flug sem er aflýst ekki þurft að drífa sig af stað og koma að lokuðum dyrum í flugstöðinni. Slíkt væri líka jákvætt fyrir þá flugfarþega sem síðar vilja bætur vegna tafa eða aflýsingar. Samgöngustofu nægði þá að fá þessar upplýsingar frá Ísavía til að geta klárað kvartanir á fimm mínútum en ekki á fimm til tólf mánuðum eins og nú er.

Það er almenningur sem þið eigið að hugsa um. Ekki sérhagsmuni flugfélaga.