Skip to main content
Tíðindi

Íslendingar ein féþúfa fyrir flugfélögin

  14/03/2011nóvember 24th, 2014No Comments

Fátt er ýkja eðlilegt við kostnað flugfélaganna Icelandair og Iceland Express fyrir einstakling til Alicante í næsta mánuði samkvæmt úttekt Fararheill. Svo framúrskarandi dýrir eru prísarnir að fullyrða má að flugfélögin séu að hafa Íslendinga hreint og beint að féþúfu.

Flugferð fram og til baka til Alicante fyrir einn einstakling 9. til 16. apríl næstkomandi kostar samkvæmt vef Icelandair 299.160 krónur. Sé miðað við fjögurra manna fjölskyldu eins og ferðaskrifstofurnar gjarnan gera kostar farið til Alicante á Spáni tæpa 1,2 milljónir króna. Þá á eftir að kaupa gistingu.

Staðan er mun betri hjá keppinautnum Iceland Express á sama fari dagana 9. til 17. apríl. Þá kemst einstaklingurinn á áfangastað fyrir 102.395 krónur. Fjölskylduferðin þar kostar því aðeins sjö hundruð þúsund krónum minna en hjá Icelandair en engu að síður fráleitur prís á 409.580 krónur.

Í báðum tilfellum er um almenningsfarrými að ræða og taka verður frá einhverja þúsundkalla fyrir mat um borð og kostnað vegna farangurs.

Ritstjórn vill benda þeim á sem vilja komast ódýrt til Spánar þó fyrirvarinn sé skammur að grípa annaðhvort tilboð til London og fljúga með easyJet eða Ryanair þaðan eða komast ódýrt til Osló með Flugfélagi Íslands og fara þaðan með Norwegian. Það flugfélag býður fargjöld á kringum 40 þúsund.