Síðastliðin ár hafa stöku erlend flugfélög boðið farþegum sínum aðgengi að netinu meðan á flugi stendur en nú virðist örla á sprengju hvað þetta varðar því Google hefur náð samkomulagi við þrjú flugfélög að bjóða ókeypis net í öllum flugferðum tímabundið.

Um er að ræða flugfélögin Virgin Atlantic, Air Tran og Delta Airlines sem munu næstu þrjá mánuði eða svo bjóða öllum farþegum sínum upp á slíkt í samvinnu við Google Chrome vefvafrann. Hefur reyndar verið tilraunakeyrsla hvað þetta varðar í samvinnu við Virgin um tíma og árangurinn þykir svo góður að nú á að færa út kvíarnar. Fólk fær þó aðeins aðgang gegnum vafra Google.

Munu því farþegar þessara flugfélaga ekki þurfa að sætta sig við takmarkað úrval í afþreyingarkerfum vélanna heldur vafra netið og vinna vinnuna sína í háloftunum.

Þykir fræðingum í bransanum orðið ljóst að innan skamms tíma verði þetta í boði í velflestum flugferðum og leysi jafnvel alfarið af hólmi afþreyingarkerfi þau sem í boði eru í vélunum.