Fyrir liggur að launakostnaður bæði Icelandair og Wow Air er almennt hærri hlutfallslega en gengur og gerist hjá velflestum flugfélögum öðrum. Sem er að mörgu leyti eðlilegt enda mun dýrara að lifa á klakanum en á öðrum stöðum heims. En um leið geta flugfélögin þá gert kröfu á sitt starfsfólk að það sýni betri þjónustu en aðrir. Icelandair fær falleinkunn fyrir þann þátt.

Meðal stærri evrópskra flugfélaga situr Icelandair á botninum hvað stundvísi snertir…

Einn mikilvægasti angi þjónustu í flugi er ekki hvort smáflaska af Jack Daniels í flugi kostar minna en annars staðar eða hvort það líður ein mínúta eða sex á milli þess sem flugþjónar koma með teppið sem þú óskaðir eftir.

Neibbs. Það sem skiptir marga ferðalanga afar miklu máli er stundvísi. Bæði þá sem fljúga beint og sérstaklega þeirra sem millilenda. Grófar seinkanir á flugi er alltaf leiðinlegt hvort sem fólk hefur nægan tíma fyrir sér eða er á brýnustu hraðferð en slíkt getur í tilfellum farþega sem millilenda þýtt að fólk hreint og beint missir af seinni vélinni með tilheyrandi veseni og fjárútlátum.

Í þessu tilliti er sorglegt til þess að vita að það flugfélag sem flýgur í nafni Íslands, Icelandair, er langneðst allra stærri flugfélaga Evrópu hvað stundvísi varðar bæði í júlí og júní í sumar. Mogensen og hans fólk hjá Wow Air fær engin verðlaun heldur en eru þó ekki í neðsta sætinu mánuðum saman eins og Icelandair.

Þetta má glöggt sjá á stundvísitöflum vefmiðilsins Flightstats sem heldur sérstaklega utan um þjónustuþætti flugfélaga á heimsvísu. Meðal stærri hefðbundinna flugfélaga í Evrópu allri vermdi Icelandair botnsætið bæði í júní og júlí.

Tölfræðin alveg kostuleg fyrir þá sem vilja kafa í málið. Meðalseinkun véla Icelandair í júnímánuði, reyndist vera 46 mínútur!!! Einungis 38 prósent allra flugferða Icelandair í júnímánuði 2018 voru á tíma.

Ók, gefum þeim séns. Kannski var þetta slæmur mánuður eða fimm milljóna króna mánaðarlaunasjéffinn kannski í fríi og enginn til að sparka í rassa. Hvernig lítur júlí út?

Úpps! Júlí rokkar ekki heldur. Meðaltöf hjá Icelandair þann mánuðinn litlar 44 mínútur en innan við helmingur allra flugferða á tíma. Röskur helmingur langt á eftir áætlun. Skárra en fjarri því gott.

Víst gæti einhver bent á að Leifsstöð sé löngu sprungin og það kunni að hafa mikil áhrif á taftölur íslensku flugfélaganna. Víst er það eflaust rétt en á móti kemur að Leifsstöð er fjarri því eini flugvöllur Evrópu sem er troðinn út og inn 365 daga á ári. Þeir eru það langflestir ef út í það er farið.

Bara lélegur rekstur ef þú spyrð okkur. Gott að launa starfsfólki vel en þá er líka lágmark að krefjast extra góðrar þjónustu. Hugmynd fyrir næsta stjóra flugfélagsins…