Þennan desemberdag tilkynnti Gamla konan, Icelandair, um sinn 44. áfangastað og þar varð borgin Belfast á Norður-Írlandi fyrir valinu. Vafasamt hvort það gengur upp.

Þriggja tíma túr með Bombardier vélum er helst til mikið að okkar mati en til Belfast verður flogið á þessum rellum. Mynd Flugfélag Íslands
Þriggja tíma túr með Bombardier vélum er helst til mikið að okkar mati en til Belfast verður flogið á þessum rellum. Mynd Flugfélag Íslands

Belfast er firna skemmtileg enda Norður-Írar ekkert síðri Írar en hinir sunnar á eyjunni. Margt líkt með skyldum og gengur ekki fjöllum hærra sú saga að þorri kvenfólks á Íslandi megi rekja tengsl til Írlands með einum hætti eða öðrum. Þar hittir fólk því kannski löngu gleymda ættingja 🙂

Kynna má sér allt um borgina í vegvísi okkar hér.

Þar er hins vegar fyrir á fleti eitt vinsælasta lággjaldaflugfélag heims, easyJet, sem hefur um skeið flogið beint milli Belfast og Keflavíkur og gengið þokkalega samkvæmt heimildum Fararheill. Hægt hefur verið að negla flug fram og aftur með þeim síðustu misserin niður í 14 þúsund krónur báðar leiðir en þar án farangurs annars en handfarangurs.

Lægstu fargjöld Icelandair fram og aftur miðað við bókunarvél flugfélagsins þegar þetta er skrifað kosta tæplega 35 þúsund krónur. Töskudrusla með í för þar en á móti kemur að flogið er á Bombardier rellum Flugfélags Íslands. Ekkert verið að spandera þotum í verkefnið. Sem þýðir jú töluvert lengri flugtími og töluvert þrengra rými til að ræskja sig og teygja.

Þó gæti farið svo að Icelandair/Flugfélag Íslands verði eitt um hituna til Belfast næsta sumar. Samkvæmt bókunarvél easyJet lýkur flugi félagsins þangað í lok apríl á næsta ári. Fyrirspurnir okkar hafa ekki leitt í ljós hvort þessu flugi verður framhaldið lengur en það. Fari svo ætti að nægja að geta þess að oft er komist fram og aftur með easyJet undir 20 þúsund krónum og það í þotu. Flugfélag Íslands, undir merkjum Icelandair, mun veitast mjög erfitt að heilla íslenska eða írska viðskiptavini ef þeir bjóða ekki betur en easyJet á mun ódýrari og lélegri vélum.

En jafnvel þó easyJet detti úr skaftinu þá er öllum hindrunum ekki rutt úr vegi. Wow Air flýgur reglulega til Dublin hinu megin landamæranna og þó fátt sé út á Belfast að setja per se leikur lítill vafi á að Dublin er með töluvert forskot hvað skemmtun og almennt opplevelse varðar. Það jafnvel þó lægstu fargjöld Wow Air báðar leiðir til Dublin næsta sumar séu töluvert hærri en lægstu fargjöld Icelandair/Flugfélags Íslands til Belfast.

Óhætt að hinkra með að bóka flugið fram yfir áramót þegar ljóst verður orðið hvort easyJet heldur ferðum áfram og ekki síður hvort Wow Air ákveður að lækka sín dýru fargjöld til Dublin með tilliti til fregna dagsins.