Skip to main content

Gróflega talið hefur ritstjórn Fararheill skrifað um það bil 30 greinar sem fjalla á einn eða annan hátt um að Icelandair reyni að komast hjá því að framfylgja lögum og reglum varðandi skaðabætur og endurgreiðslu til þeirra sem á einhvern hátt lenda í töfum eða seinkunum hjá flugfélaginu.

Þetta íslenska flugfélag reynir sitt ítrasta til að greiða þér ekki réttmætar skaðabætur

Þetta íslenska flugfélag reynir sitt ítrasta til að greiða þér ekki réttmætar skaðabætur

Við höfum aftur og ítrekað bent á að rétturinn er þín megin og að lögfræðiteymi Icelandair fær greidd fín laun fyrir það eitt að kasta ryki í augu þeirra fáu sem telja á sinn rétt gengið og hafa fyrir því að fá bætur fyrir.

Kristaltært dæmi um að þetta flugfélag sem flýgur í nafni Íslands reynir að svindla á þér ef þess er nokkur kostur er grein Sigurðar Hólms Gunnarssonar sem titlaður er ritstjóri vefmiðilsins Skoðun.is.

Sá er viti borin manneskja sem ekki lætur bjóða sér hvað sem er eins og fram kemur í þessu bloggi hér.

Þar segir frá því að eftir að hafa verið strandaglópar í Helsinki eftir að flug Icelandair frá borginni var aflýst vegna yfirvinnuverkfalls flugmanna félagsins vildi fyrirtækið ekkert fyrir liðið gera. Icelandair hélt því fram að yfirvinnubann eigin flugmanna flokkaðist sem „óviðráðanlegar aðstæður“ og því bótalaust.

Það segir sig náttúrulega sjálft að forsvarsmenn Icelandair gátu á engan hátt borið ábyrgð á því að greiða eigin flugmönnum ásættanleg laun. Þeir þurfa jú að standa skil á seðlum til hluthafa og einhverjar afborganir eru jú af Central Park íbúð formanns stjórnar. Auðvitað eiga viðskiptavinir að gjalda þess.

Nema hvað, Sigurður lét sig ekki og fimm mánuðum eftir höfnun sendi Icelandair bréf þess efnis að hann ætti eftir allt saman rétt á bótum…

No shit Sherlock!

Og enginn leggur út af þeirri staðreynd að Icelandair er nú stærsta og öflugasta fyrirtæki landsins fimm mínútum eftir að fyrirtækið þurfti inngrip ríkisstjórnar til að halda þotum sínum á lofti.

Dapurt í meira lagi en við ítrekum aftur og aftur og aftur: þú átt undantekningarlítið rétt á bótum ef flug fellur niður eða tefst meira en góðu hófi gegnir. Þær bætur geta skipt tugum þúsunda gott fólk.