Frá og með miðju sumri er hætt við að Airbnb og aðrar íbúðaleigur missi töluvert af viðskiptum í spænsku borginni Valensíu. Borgaryfirvöld hafa nú alfarið bannað leigu á íbúðum með útsýni.

Alls engar leiguíbúðir fyrir ferðafólk í gamla borgarhluta Valensíu eftirleiðis.

Já, þú last þetta rétt. Eftirleiðis verður eingöngu hægt að leigja íbúðir í Valensíu á 1. eða 2. hæð og alls ekki í gamla miðbænum, Ciutat Vella. Engum heimilt að leigja íbúðir til erlendra ferðamanna í miðborginni ólíkt því sem gerist í Reykjavík Dags B. Eggertssonar, þar sem enginn Íslendingur kemst að fyrir ferðafólki.

Annars staðar í borginni verður í lagi að leigja út íbúðir til ferðamanna en aðeins ef ekkert er útsýnið. Gera má að því skóna að minnst helmingur þeirra sem kjósa leiguíbúðir í stað hótela geri slíkt vegna góðrar staðsetningar og útsýnis með. Hver vill gista í íbúðarholu þar sem sólin kemst aldrei að?

Ágætt að hafa í huga svona fyrir þá sem hugsa sér gott til glóðar í Valensíu seinni hluta ársins. Góðu heilli er hótelgisting í Valensíu svona almennt á lægra verði en í vinsælli nágrannaborgum ef bókað er með þokkalegum fyrirvara 🙂