Ein er sú borg á Spáni sem tiltölulega lítið fer fyrir og bæjarbúar vilja einmitt hafa það þannig. Það merkilega er að ein skemmtilegasta hátíð sem ár hvert er haldin fer fram í þessari sömu borg og það leyndarmál er smátt og smátt að verða það verst geymda.

Brennið þið vitar og brúður.
Brennið þið vitar og brúður.

Við erum að tala um borgina Valencía og hátíðina Las Fallas sem er stórkostlegri en nokkur orð fá lýst að mati Fararheill.

Hún hefst formlega með sprengiveislu þann 1. mars ár hvert fyrir utan ráðhús bæjarins en aðal húllumhæið er frá 16. mars til 19. mars sem einnig markar endalok hennar.

Og hvað er svo svona merkilegt?

Las Fallas er sönn hátíð skynfæranna og skulu gestir ekki gera ráð fyrir miklum svefni síðustu dagana og gildir þá einu hvar þeir planta sínum rassi. Það helgast af því að bæjarbúar sprengja kínverja og aðrar bombur villt og galið allan tímann alls staðar.

Séu menn lítt fyrir gengdarlaust sprengjuæði er besti kosturinn að fara úr borginni en sá næstbesti að drífa sig niður í miðbæ og virða fyrir sér stórkostlegar fígúrur úr pappamassa sem sitja í hverri einustu götu og ekki bara ein heldur tvær. Önnur er byggð af fullorðnum íbúum í hverri götu fyrir sig en hin er gerð af smáfólkinu með hjálp frá þeim fullorðnu. Slíkar fígúrur kallast Falla á ylhýru spænskunni og keppa göturnar um þann heiður að eiga flottasta verkið ár hvert en slíkt þykir gríðarmikill heiður.

Metnaður í styttugerðinni er mikill og sumar götur ráða þekkta listamenn til að hanna og smíða verk sín.
Metnaður í styttugerðinni er mikill og sumar götur ráða þekkta listamenn til að hanna og smíða verk sín.

Hver gata vinnur í heilt ár að fígúru sinni og það eru grimm örlögin sem bíða herlegheitunum ef ekki vinnst fyrsta sætið. Það er nefninlega kveikt í öllu saman á miðnætti þann 19.mars og er það sannarlega sjón að sjá risabál í hverri einustu götu bæjarins undir ströngu eftirliti slökkviliðs.

En göturnar eru ekki eingöngu að keppa í fígúrugerð. Einnig hefur skapast sú hefð að best skreytta gatan fær einnig verðlaun og það er engu minni viðburður að rölta niður eftir vel skreyttri götu en að virða pappafígúrurnar fyrir sér. Flestar stærri göturnar elda einnig saman þjóðarréttinn Paella þegar kvölda tekur í risapönnum og í stöku tilfellum leyfist gestum að grípa disk og slást í hópinn.

Laugardagskvöldið fyrir lok hátíðarinnar er kveikt í öllum þeim fígúrum sem ekki þóttu allra merkilegastar og bálkesti má finna í fjölmörgum götum
Laugardagskvöldið fyrir lok hátíðarinnar er kveikt í öllum þeim fígúrum sem ekki þóttu allra merkilegastar og bálkesti má finna í fjölmörgum götum

Þá má ekki gleyma flugeldasýningu sem fram fer síðustu þrjá dagana frá lækjarbotninum sem liggur gegnum miðborgina. Jafnvel fyrir Gamlárskvöldsvana Íslendinga er sú sýning verulega glæsileg en síðasta sýningin þann 19. mars slær allt annað út. Það er látlaus klukkustundar kennslustund í skotfræðum.

Krydda má allt þetta með bæjarbúum skreyttum sínum sérstaka klæðnaði, tónlist sem ómar frá hverri götu og almennri kurteisi og almennilegheitum bæjarbúa.

Er þá fátt eitt sagt um þessa miklu hátíð sem fram fer til að heiðra Heilagan Jóhannes en þar líður ekki andartak án þess að eitthvað skrýtið, skemmtilegt eða óvænt komi gestum á óvart. Við viljum meina að þetta sé ein af fimm fjörugustu hátíðum Evrópu allrar.

Miðað við stærð er fjöldi hótela í borginni lítill. Sem þýðir að slegist er um gistingu hér meðan á Las Fallas stendur. Fararheill mælir með að fólk gangi frá hóteli að minnsta kosti þremur til fjórum mánuðum fyrir hátíðahöldin. Eftir þann tíma hækkar verð á gistingu verulega þar sem enn er laust.

Grínlaust þá er þetta lítt sniðugt fyrir þá sem þurfa sinn svefn. Hér byrjar hávaði snemma á morgnana og það er hávaði fram eftir öllum nóttum í velflestum hverfum.