Einhvern tíma hugleitt að velflest ferðaþjónustufyrirtæki heims svindla töluvert á þér daginn út og inn? Eða hversu oft sérðu myndir af áfangastöðum þar sem allt er troðið af fólki?

Iðandi dýralíf í Yala þjóðgarðinum á Srí Lanka. Mynd Yala National Park

Það er regla frekar en undantekning að myndir þær af áfangastöðum ferðaskrifstofa, innlendra sem erlendra, sýna hlutina við bestu mögulegu aðstæður. Myndirnar oftast teknar af fagfólki og allt lítur hreint dásamlega út.

En svo kikkar raunveruleikinn inn þegar komið er á staðinn. Raðir á raðir ofan og ekki þverfótað fyrir öðrum ferðamönnum. Stundum líka rusl um allar trissur, hávaði allt að drepa og eða mengun svo ægileg að hún byrgir góða sýn. Sumt eða allt ofantalið á við um taði á borð við Taj Mahal, Stonehenge, Eiffel, Dauðahafið, Þingvelli, Pompeii, Yellowstone eða hvaða annan stað á jörðu sem vinsæll er meðal ferðafólks. Það eru sífellt fleiri um hituna á hverjum stað fyrir sig sem dregur verulega úr ánægjustundum allra.

Fágætir hlébarðar njóta lífsins í kyrrð og ró í Yala þjóðgarðinum.

Einn félagi okkar á ritstjórn kvartaði sáran yfir að hafa látið platast af himneskum myndum af ægifögrum stöðum á ferð um Srí Lanka fyrir skemmstu.

Einn sá staður sem mig langaði mest að skoða á eynni var Yala þjóðgarðurinn en það er stærsti þjóðgarður landsins. Í garðinum sem er að hluta til lokaður ferðamönnum má engu að síður sjá einhver mikilfenglegustu dýr jarðar. Fíla, páfugla, hlébarða, villisvín, erni, apa og krókódíla svo fátt eitt sé nefnt. Mér og unnustu minni hlakkaði ægilega til enda hafði ég skoðað myndir úr garðinum og þetta virtist sannarlega paradís á jörð.

Raunveruleikinn þessi. Í hvert sinn sem tignarlegt dýr sést í Yala-þjóðgarðinum æða 500 jeppar á sama staðinn.

Eftirvæntingin fór þó fyrir lítið þegar við mættum eldsnemma morguns á staðinn. Garðinn má aðeins skoða í svona safarí-jeppum sem flestir voru með opnum toppi svo fólk gat staðið upprétt. Þótt við mættum 40 mínútum áður en túrinn átti að hefjast reyndumst við vera í jeppa númer 408. Það kom í ljós að 500 jeppar mega aka um svæðið þrisvar sinnum hvern dag og hver og einn þeirra með þetta þrjá til sex farþega. Það sem verra er; allir bílarnir halda af stað á sama tíma inn í garðinn og bílarnir halda sig að mestu á sömu slóðum þær þrjár til fjórar stundir sem hver túr tekur. Helmingur túrsins reyndist því vera akstur í verulega langri bílaröð með þokkalegum hávaða og sterk díselolíulykt í loftinu.

Alltaf gaman að umferðaröngþveiti í miðjum þjóðgarði…

Þó við sæjum vissulega nokkur glæsileg dýr garðsins var þetta einhver mestu vonbrigði lífs míns. Komin spennt alla þessa leið og þjóðgarðurinn nánast þjóðvegur fyrir 500 reykspúandi jeppa. Hræðilegt fyrir dýrin og verulega glatað fyrir ferðafólkið. Mæli ekki með þessu.

Nei, það lítt spennandi að upplifa dásemdir villtra dýra í ryk- og díselmekki. Öllu verra fyrir dýrin auðvitað sem fá líklega aldrei frið.

Þetta því miður ekki einsdæmi. Þess vegna yfirleitt alltaf gáfulegt að tempra spenning fyrir einhverjum tilteknum stað eins og mögulegt er. Raunveruleikinn er nefninlega sjaldnast eins góður og gefið er í skyn í auglýsingum 😉