S pánverjinn enginn nýgræðingur þegar kemur að því að féfletta ferðafólk. Að hluta til eðlilegt því ríkt fólk frá norðri er jafnan ekki að liggja yfir reikningum að máltíð lokinni. Allra síst þegar vín er haft um hönd. Sem er nánast alltaf 😉

Dúndurstuð við sundlaugarbakkann á vinsælu hóteli í Estepona í Andalúsíu

Einn úr ritstjórn flakkað duglega um Andalúsíu um tveggja mánaða skeið og þann tíma hvorki skorinn matur né áfengi við nögl eins og sönnum Íslendingi sæmir. Þvert á móti eiginlega, borðað oftar en venjulega og áfengið dettur inn um svipað leyti og sólin fer að hita kinn og kjálka.

Sem er, þó einhverjir yfirborðskenndir þrátti fyrir, ósköp eðlilegt af hálfu Íslendinga og annarra Norðurlandabúa í tuttugu plús hita við sólarströnd. Það er nánast í erfðaefnum okkar fölbleikra íbúa norðursins að skjóta í öl eða vín um leið og hitastig nær 18 gráðum hvarvetna í heiminum.

Nema hvað! Sökum þess að viðkomandi var sérstaklega á varðbergi gagnvart reikningum á hinum og þessum stöðunum, kom í ljós að næstum önnur hver búlla reynir að svindla pínulítið á þér.

Dæmi:

Á flottasta veitingastaðnum í Motril, þar sem humarsúpa var í forrétt og túnfiskur í aðalrétt, datt alls óvart inn á reikninginn brauð fyrir sex evrur alls. Sem ætti að vera eðlilegt ef einhver hefði pantað brauð aukalega en svo var ekki. Sex evrur rétt tæplega níu hundruð kall í ofanálag.

Á tyrkneskum veitingastað í miðborg Almeríu reyndist virðisaukaskattur á matinn vera 30,34 prósent. Sem virðist hátt við fyrstu sýn en þegar reikningurinn skiptir hundruðum evra fer minna fyrir. Það er þó varla nema fyrir fólk sem veit að vaskur á mat á Spáni nemur 21 prósenti sem grunsemdir vakna. Hér reyndi Tyrkinn sem sagt að græða níu prósent aukalega og æði forvitnilegt að vitna vesenið þegar litli Íslendingurinn gerði athugasemdir við vaskprósentuna.

Á vinsælum veitingastað í fjallabænum Ronda kom reikningur fyrir fjóra þegar óskað var eftir að gera upp. Sem er gott og blessað ef ekki hefði verið sú staðreynd að einungis tveir sátu að borði. Maturinn, sem átti að kosta sirka 40 evrur, kostaði rétt rúmlega 70 evrur samkvæmt reikningnum. Hræðileg mistök sagði yfirþjónninn þegar upp komst…

Á litlum veitingastað í miðborg Malaga kom reikningur þar sem tiltekið var. alveg neðst á reikningnum, að borð úti í sólinni kostaði 2 evrur aukalega ofan á allt annað. Hmmm. Gerð var harðorð athugasemd enda það ekki raunin að ferðafólk borgi aukalega fyrir sólarsæti útivið á þessum slóðum. Uppistandið vægast sagt mikið og hringt var í eigandann sjálfan sem var í fríi á fjarlægum slóðum áður en gjaldið var skyndilega fellt niður sísona og enginn baðst forláts eða afsökunar.

Veitingahúsaeigendur í Andalúsíu, sem víðar, vita sem er, að erlendir viðskiptavinir eru sjaldnast að fara með stækkunargler yfir reikningana. Það eðlileg niðurstaða enda kostar máltíð á velflestum stöðum Andalúsíu að minnsta kosti tvöfalt minna en heimavið og á köflum þrefalt minna. Þess utan er erlent ferðafólk að njóta lífsins frá amstri og tvær, þrjár, fjórar, fimm eða sex evrur til eða frá skipta þá litlu máli.

Það því alveg kjörið að henda einhverju smotteríi aukalega á reikning þeirra sem mest hafa drukkið og mest hafa gaman. Það fólk ólíklegt að taka eftir að smá viðbót er á reikningnum.

Farðu varlega þarna úti…