Ekki er sumarið liðið fyrr en Wow Air stekkur á skíðaferðavagninn og auglýsir beint flug til Salzburg í Austurríki. Sem auðvitað er æði góður staður ætli fólk að spenna á sig skíði eða bretti þennan veturinn. En er raunverulega „stutt“ á bestu skíðasvæðin þaðan eins og flugfélagið vill vera láta?

Skíði í Austurríki í næsta nágrenni við Salzburg? Skjáskot
Skíði í Austurríki í næsta nágrenni við Salzburg? Skjáskot

Eins og sjá má á meðfylgjandi auglýsingu frá Wow Air er málið að fljúga með þeim til Salzburg í vetur því þaðan er svo stutt á öll flottustu skíðasvæði landsins.

Stutt er auðvitað teygjanlegt hugtak en við hér á ylhýra Íslandi erum afar góðu vön í þessum efnum. Það er jú ekki nema hálftíma keyrsla frá höfuðborgarsvæðinu upp í Bláfjöll og enn styttra fyrir Akureyringa upp í Hlíðarfjall.

Stór orð semsagt. En eru það innantóm orð eða er raunverulega stutt frá Salzburg á helstu skíðasvæði landsins? Fararheill fór á stúfana. Hér að neðan er fjarlægð til helstu skíðastaða Austurríkis og hér skal muna að um aðra leið er að ræða.

♥ Salzburg > Zell am See Á bílaleigubíl er fólk klukkustund og 40 mínútur að meðaltali frá Salzburg til Zell am See. Öllu verra að reyna rútu eða lest. Rúnturinn þannig tekur tvær stundir að meðaltali plús klukkustund til eða frá að komast frá flugvellinum og út á rútu- eða lestarstöð.

♥ Salzburg > Bad Hofgastein Bílaleigubíll frá flugvellinum er þjóðráð því þannig tekur aðeins rétt rúma klukkustund að komast til Bad Hofgastein. Þurfi fólk að taka rútu eða lest tekur túrinn hins vegar tvær stundir plús tímann að komast frá flugvelli að rútu- eða lestarstöð.

♥ Salzburg > Flachau Brekkur Flachau eru aðeins í réttri klukkustund frá Salzburg á bifreið. En túrinn lengist í eina og hálfa klukkustund með rútu eða lest.

♥ Salzburg > St.Anton Hingað er töluverður spotti að fara. Þrjár stundir með bíl og fjórar stundir að meðaltali með almenningsfarartækjum.

♥ Salzburg > Ischgl Sama sagan hér. Rúmar þrjár stundir að meðaltali á bifreið og rúmar fjórar stundir með rútum.

♥ Salzburg > Lech Til Lech tekur þrjár stundir að aka frá Salzburg en óhætt að bæta við rúmri klukkustund með rútum.

♥ Salzburg > Kitzbuhel Tiltölulega fljótkeyrt á bílaleigubíl eða eina og hálfa klukkustund en tvo og hálfan tíma að meðaltali með rútu eða lest.