Þetta kæmi engum á óvart í Úkraínu eða Búrma en að íslenska ríkisfyrirtækið Ísavía neiti að gefa upp hversu oft flug Wow Air, Icelandair eða Primera Air hafa verið felld niður eða verið aflýst er aldeilis galið.

Hagsmunir neytenda fyrir borð bornir hjá ríkisfyrirtækinu Ísavía. En flugfélögin njóta vafans. Skjáskot

Fararheill fór þess á leit við Ísavía að upplýsa hversu oft flugferðir ofangreindra flugfélaga hafa fallið niður á árinu 2017. Við spurðum sökum þess að fyrir fólk sem fylgist nokkuð grannt með flugáætlun til og frá Keflavík hefur verið nokkuð áberandi hve oft flug „íslensku“ flugfélaganna hefur verið aflýst með tilheyrandi óþægindum fyrir hundruði viðskiptavina í hvert sinn. Ekki síður áhugavert sökum þess að aflýsing á flugi hefur lengst af aldrei verið neitt stórvandamál hjá innlendum flugfélögum. Hvers vegna hefur það aukist margfalt á skömmum tíma?

Til að sanngirni sé gætt var okkur bent á leið til að finna þessar upplýsingar út á eigin spýtur með því að þræða hvern einasta dag ársins. En fyrir þriggja manna ritstjórn með fjölskyldur og þetta hefðbundna dags daglega vesen tæki það nokkra daga hið minnsta. Það ekki boðlegt gagnvart okkur né nokkrum öðrum þeim er áhuga hafa að vita þessar upplýsingar.

Myndi það gagnast einhverjum að vita að Icelandair hefur fellt niður tólf flug á árinu? Wow Air fellt niður 16 flug á árinu eða Primera Air fellt niður fimm flug? Svo hugsanleg dæmi séu tekin.

Hvað okkur hér varðar þá verður að svara þeirri spurningu játandi. Príma lág fargjöld með flugfélagi sem reglulega fellir niður flug endar mjög líklega á að vera EKKI príma lágt fargjald fyrir fjölda viðskiptavina þegar allt kemur til alls. Öllu færri flykktust jú í Sambíóin ef fimm prósent sýninga væri felldur niður fyrirvaralaust án skýringa þó fólk sé búið að kaupa popp og kók og fá sér sæti í kvikmyndahúsinu. Við göngum svo langt að segja að Sambíóin væri ekki lengur starfandi fyrirtæki ef það væri raunin.

Flugfarþegar hins vegar mega eiga sig. Gaman að þessu. Ríkisfyrirtæki sem tekur hagsmuni flugfélaga fram yfir hagsmuni neytenda. Kominn tími til að forstjórinn, Björn Óli Hauksson, fái sparkið svo við hin getum fengið sjálfsagða þjónustu árið 2018.