Það kann að hljóma hjákátlega að segja að eitthvað flugfélag fari Krísuvíkurleiðina alla leið til Alicante á Spáni en þar auðvitað verið að meina að tekin sé seinfarnari eða lengri leið en ella er þörf á. Merkilegt nokk virðist það reyndin til Alicante.

Alltaf ljúft að dvelja undir sólinni í Alicante. En vissir þú að það tekur mismunandi langan tíma að fljúga til og frá?

Þrjú flugfélög skottast með okkur til hinnar vinsælu Alicante á austurströnd Spánar reglulega þessa dagana. Primera Air, Wow Air og Norwegian Air Shuttle. Aukin samkeppni aldeilis frábær enda sýna stikkprufur okkar að Wow Air sem lengi vel bauð flug á þessar slóðir á langlægsta verði á nú í stökustu vandræðum með að bjóða ekki hæsta verðið. Það getur hver sem er gengið úr skugga um með því að bera saman fargjöld flugfélaganna þriggja næstu mánuðina.

Látum það liggja milli hluta að sinni. Það er dálítið annað merkilegt við flugferðir þessara flugfélaga til og frá Alicante. Sú staðreynd að vélar Wow Air eru töluvert lengur á leiðinni en vélar samkeppnisaðilanna!!!

Flugtími Wow Air til Alicante. Skjáskot

Það er að minnsta kosti sú ályktun sem óhætt er að draga sé skoðaður flugtími véla hvers flugfélags til Alicante og heim aftur frá Alicante. Gildir þá einu hvaða flug er litið á eða hversu langt fram í tímann. Vélar Wow Air eru LENGUR Á LEIÐINNI en aðrir aðilar.

Flugtími Primera Air til Alicante frá Keflavík. Skjáskot

Hversu mikið lengur? Á útleið frá Keflavík til Alicante gefur Wow Air upp á vef sínum að flugtími sé 4 klukkustundir og 45 mínútur. Ekkert óeðlilegt við það nema kannski að uppgefinn flugtími Norwegian og Primera Air reynist vera 4 klukkustundir og 35 mínútur! Vélar Norwegian og Primera Air eru TÍU MÍNÚTUM fljótari en vélar Wow Air.

Þetta finnst okkur stórmerkilegar fréttir. Wow Air virðist keyra rellur sínar í fjórða gír meðan samkeppnisaðilarnir smella í fimmta gírinn án þess að blikka auga.

Heim frá Alicante og fimm klukkustundir og fimm mínútur ekkert óeðlilegt. Skjáskot

En ókídókí. Kannski er Wow Air bara að fljúga á sparneytnari máta en hin flugfélögin. Langsótt jú en kannski möguleg skýring.

Tíu mínútum fyrr eða síðar til Alicante en ella skiptir kannski ekki höfuðmáli fyrir okkur flest þó vissulega sé alltaf betra að vera skemur í vélum en lengur. Það eru jú ekki flugferðirnar sjálfar sem okkur þykir svo dásamlegt við ferðalög.

Farþegi með Norwegian heim til Íslands er 25 mínútum skemur á leiðinni en farþegi Wow Air. Skjáskot

Nema hvað staðan versnar strax töluvert meira fyrir Wow Air sé litið til heimleiðarinnar. Eins og sjá má á skjáskoti þrjú hér fyrir ofan gefur Wow Air sér að rellur sínar séu fimm klukkustundir og fimm mínútur á leiðinni.

Það hljómar nokkuð eðlilega. Í það minnsta þangað til fólk skoðar uppgefinn flugtíma hjá Norwegian sem sjá má hér til hliðar. Þar sést svart á hvítu að Norwegian kemur farþegum sínum frá Alicante heim 25 MÍNÚTUM fljótar en Wow Air. Primera Air auglýsir svipaðan flugtíma og Norwegian.

Það er ansi alvarlegur tímamunur á tæplega fimm klukkustunda flugi ekki satt. Til að gæta sanngirni fundum við ekki önnur slík dæmi á leiðum sem Wow Air stendur í samkeppni og auðvitað er uppgefinn flugtími alltaf mjög grófur því veður og vindar flýta eða seinka för þotu auðveldlega um fleiri mínútur.

En ekki kæmi okkur á óvart að Wow Air sé með þessu trixi að reyna að fela alvarlegar tafir og seinkanir. Slíkt stunda allnokkur flugfélög til að bæta ásýnd sína. Gefa sér tíu til tuttugu mínútur aukalega í flug til að lenda nú pottþétt á „tíma“ og fá ekki mínus í kladdann. Ef svo er raunin er stærri pungur undir forstjórum Primera Air og Norwegian en herra Mogensen státar sig af.