„Hæ Fararheill. Þið hafið skrifað nokkuð um Egyptaland að undanförnu og mælið með. En hvernig er best að haga ferð þangað og er einhver sérstakur aðili sem býður slíkt héðan? Kveðja, Smári.“

Egyptaland býður upp á svo mismunandi hluti að erfitt er að komast yfir með góðu móti.

Auðvitað tómur kjánaháttur af okkar hálfu að benda ítrekað á Egyptaland sem fyrirtaks áfangastað en ekki tiltaka hvernig komist er þangað með góðu eða sæmilegu móti. Vér biðjumst velvirðingar á þeirri yfirsjón.

Því er til að svara Smári, að frá Íslandi er ekki komist í neinar pakkaferðir til Egyptalands. Þar með ekki sagt að innlendar ferðaskrifstofur geti ekki sett saman pakka fyrir þig og þína en það yrði alltaf í gegnum erlenda aðila og millilending einhvers staðar í Evrópu er gefið. Þá þarf milliliðurinn auðvitað sinn skerf sem hækkar verðið.

Þess vegna ráð að græja ferðina sjálf. Annaðhvort alfarið með eigin skipulagningu eða kaupa beint gegnum viðurkennda erlenda ferðaskrifstofu og kaupa flugið til Evrópu og heim aftur sjálf.

Túr til Egyptalands er þó ekki alveg sáraeinfalt að græja. Landið er risastórt og fólk þarf að gera upp við sig hvort það vill hingað til að svamla í heitu Rauðahafinu og njóta dolce vita eða þvælast um og vitna öll þau mögnuðu undur sem finnast meðfram Nílarfljóti. Auðvitað hægt að gera bæði en það er langt á milli og dýrt og til að vel sé þarf ekki minna en tvær vikur til að gera það á sæmilegan máta.

Nú erum við engir sérfræðingar í erlendum ferðaskrifstofum en ýmsir aðilar frá Danmörku bjóða reglulega pakkaferðir frá Köben til Egyptalands. Til að mynda finnum við við leit hreint ágæta ferð hjá Apollo ferðaskrifstofunni þegar þetta er skrifað. Tveggja vikna sólarpakki við Rauðahaf í vor og hægt að negla ágætan túr allt niður í 155 þúsund krónur á mann miðað við tvo á sæmilegu hóteli. Nánar hér.

Ef hins vegar meiri áhugi er á þeim einstöku fornminjum sem finnast hér og þar meðfram Níl er óvitlaust að kíkja yfir á þýsku ferðaskrifstofuna Studiosus. Þar er þessa stundina verið að bjóða átta daga ferð frá Þýskalandi, þrjá daga í höfuðborginni Kaíró og fimm daga siglingu niður Níl í fimm stjörnu lúxus fyrir 230 þúsund krónur á haus miðað við tvo saman. Nánar hér.

Margir aðrir möguleikar í boði en það krefst þvælings á netinu eina kvöldstund að minnsta kosti. Báðar ofangreindar ferðir gegnum virtar ferðaskrifstofur og verðið gott. Ofan á það verður auðvitað að bæta flugi til og heim aftur.

Íslendingar þurfa EKKI lengur sérstaka vegabréfsáritun til Egyptalands. Það breyttist árið 2017 og nú fæst tímabundin áritun við komuna til landsins.

Vonum að þetta hjálpi Smára og kannski einhverjum öðrum sem spenntir eru fyrir Egyptalandi.