Skip to main content

Það eru nú kannski ekki margir sem gera sér sérstaka ferð til Ibiza í aprílmánuði enda eyjan atarna tengdari veislum og endalausum partíum yfir sumartímann. En sökum þess er aldeilis hægt að gera góð kaup í ferðum utan þess annatíma.

Ekki klassískt og ekki alltaf ljúf en allt að færast til betri vegar á Ibiza. Mynd Phillip Larsson

Ekki klassískt og ekki alltaf ljúf en allt að færast til betri vegar á Ibiza. Mynd Phillip Larsson

Spænskum hefur tekist sérlega vel að vekja Ibiza til lífs að nýju en eins og eldri Íslendingar muna var Ibiza um tíma einn allra heitasta áfangastaður Evrópu allrar. Hún varð þó útjöskuð og lúin á nokkrum árum og margir misstu áhugann.

En fyrir fimm til sex árum síðan fóru stjórnvöld og eyjaskeggjar að taka til hendinni að færa hluti til betri vegar og það hjálpaði töluvert að frægir plötusnúðar fundu hér stórar galtómar strandlengjur og tóku til við að halda hér strandpartí sem nú trekkja hundruð þúsunda ungmenna árlega.

En sá hópur fólks lætur ekki sjá sig fyrr en um mitt sumar og fram að því er Ibiza kjörinn áfangastaður til hvíldar undir sólinni og var til dæmis í öðru sæti í nýlegri stórri ferðakönnun í Bretlandi sem besti staðurinn fyrir rómantíska dvöl.

Tilboðsvefurinn Travelbird er þessa stundina að auglýsa ferðatilboð til eyjunnar þar sem gist er á fjögurra stjörnu hóteli með morgunverði á dagsetningum frá miðjum apríl og fram til maí fyrir svo lítið sem 49 þúsund krónur á mann miðað við tvo saman. Hundrað þúsund á par fyrir vikudvöl fjarri því slæmur kostur. Ágætt að hafa í huga að þetta er tvö- til þrefalt lægra verð en sama gisting í sama tíma í júlí eða ágúst.

Við þurfum þó að komast til London og eins og Fararheill hefur áður bent á er auðvelt að finna lág flugfargjöld eftir páska í apríl enda tiltölulega fáir á faraldsfæti eftir páskafríið. Við finnum flug til London og heim á dagsetningum sem passa með easyJet svo dæmi sé tekið niður í 22 þúsund krónur á mann þann tíma en reyndar þarf að gista eina nótt í London.

Með þeim hætti er hægt að njóta hinnar endurreistu Ibiza í viku fyrir 75 þúsund krónur plús klink til eða frá. Fátt athugavert við það verð. Nánar hér.