Komin með nóg af vetrarferðum til Kanaríeyja? Þó ljúfar séu eyjarnar og loftslag og veðurfar eins og talað úr hvers manns hjarta er verulega takmarkað þar að gera og sjá. Kjósi fólk eitthvað nýtt og sé reiðubúið í smá ævintýri má njóta bæði Tyrklands og Grikklands í desember fyrir klink og ingenting 🙂

Víst er enginn að fara að brenna á ströndum Tyrklands í desember en hitastigið er með allra þægilegasta móti.

Þegar við segjum klink og ingenting þá meinum við að Tyrklands- og Grikklandstúr í fjórtán daga í desember næstkomandi fæst allt niður í 70 þúsund krónur á kjaft miðað við tvo saman. Par, vinir eða hjón dúllast því um Tyrkland og Grikkland í tvær vikur á sama verði og vikutúr kostar parið á Kanaríeyjum að lágmarki á lummulegu íbúðarhóteli.

Reyndar er tilboðið sem um ræðir töluvert betra en 70 þúsund á kjaft því um er að ræða eina vinsælustu ferðaskrifstofu Þýskalands, H&H Turistik, sem er að bjóða tveggja vikna Tyrklands/Grikklandstúra og það á svo mikið sem 37 þúsund krónur frá Þýskalandi!!!

Illu heilli þurfum við að koma okkur til Þýskalands til að njóta veiganna og það kostar vart undir 30 til 40 þúsund á kjaft með töskudruslu í för. Ergo: Tyrklands og Grikklandstúr fyrir rétt rúmlega 70 þúsund á haus.

Nú kann einhver að hrista haus og sýna neikvæðni. Tyrkland og Grikkland í desember. Það er ávísun á skítakulda, snjó, almenna vosbúð og gott ef mörgæsir vappa ekki um strendurnar líka.

Víst er ómögulegt að vita hvað veðurguðirnir gera í desember 2017 en ef marka má sömu veðurguði síðastliðna áratugi er meðalhitastig á Miðjarðarhafsströndum Tyrklands og Grikklands í desember um 14 gráður og fer nánast aldrei niður undir ellefu gráður. Það hljómar óspennandi fyrir alla sem telja að meðalhitastig á Íslandi í júlí sé fyrir neðan allar hellur. Þetta er nefninlega sama hitastig og á Íslandi í júlí 🙂

Hitastigið er þó kannski aukaatriði sé fólk á höttum eftir einhverju öðru en Íslendingakvöldi á skitnum bar á ensku ströndinni á Kanarí. Það er jú vel hægt að upplifa Íslendingakvöld hér heima og engin þörf að álpast sex tíma til Kanaríeyja til þess 😉

Svo ef lesendur eru áhugasamir um billegar ferðir, þægilegt hitastig, bæi og strendur suður-Tyrklands og fimm stjörnu dvöl á eyjunni Rhodos svona í og með og að stærstum hluta með allt innifalið plús leggja ekki fyrir sig millilendingu í Þýskalandi er ráð að skoða þetta eðalfína tilboð H&H Turistik.

Við lifum bara einu sinni. Lítt varið í að eyða öllum frítíma alltaf á sama staðnum…