Hugsi meðalmaðurinn til Tyrklands koma gjarnan upp í hugann feykivinsælir ferðamannastaðir á borð við Marmaris, Antalya, Izmir og Bodrum. Mögulega líka Istanbúl og Kappadokkía ef fólk þekkir vel til. En einn staður sem kemst varla á blað hjá útlendingum er það sem heimamenn kalla Bómullarkastalann.

Fólk að dunda sér við bómullarkastalann 🙂

Nú erum við auðvitað aðeins að svindla. Auðvitað þekkja fáir útlendingar Bómullarkastalann því fáir kunna tyrknesku.

Málið horfir sennilega öðruvísi við ef við notum orðið Pamukkale í staðinn.

Pamukkale þýðir bókstaflega Bómullarkastali og vitni menn með eigin augum hvað Pamukkale er er sáraeinfalt að fallast á að nafngiftin er hreint ekki fáránleg á einhverjum fegursta stað Tyrklands og þótt víðar væri leitað.

Pamukkale er fyrir Tyrkland það sem stór hluti hálendisins er fyrir Ísland. Svona staður sem er í hróplegu ósamræmi við annað í landinu. Svona staður sem sker sig svo úr að hann gæti vel verið á tunglinu. Eða Mars. Eða Júpíter. Ójarðneskur með öðrum orðum.

Hvað gerir Pamukkale svona sérstakan? Jú, hér er á litlum bletti mikill jarðhiti og vatn seytlar linnulaust upp á yfirborðið. Sem er kannski ekkert sérstakt út af fyrir sig nema fyrir þá staðreynd að brennheitt vatnið er svo ríkt af steinefnum að hér hafa hlaðist upp gegnum aldirnar stallar á stalla ofan af kalksteinsþrepum. Þrepum sem fyllast á augabragði af misheitu vatni. Sumir hverjir með kjörhitastigið 37 gráður eins og heitu pottarnir í laugunum hér heima 🙂

Við gætum haldið áfram að útlista stórkostlegheitin en þar sem myndir segja þúsund orð og við hér erum löt að eðlisfari…

Fólk að dunda sér við bómullarkastalann 🙂

PS: Það er ótrúlega stutt frá vinsælum áfangastöðum Tyrklands til Pamukkale og óðs manns æði að láta sig ekki hafa túr. Hvort sem þú rúllar á bílaleigubíl eða með rútu tekur ferðalagið til og frá sex klukkustundir frá Antalya og enn stytta frá Marmaris eða Bodrum. Bættu við tveimur stundum að lágmarki ofan á það. Þá klukkustund sem þú stendur agndofa yfir fegurðinni og aðra klukkustund þegar þú valsar um og dýfir táslum í heitar lindirnar.

Ógleymanleg upplifun (jafnvel þó hér sé ruglmikið af ferðafólki allan ársins hring.)