Ekki er sama Jón og séra Jón. Sætir það nokkrum tíðindum að mati ritstjórnar Fararheill.is að þrátt fyrir óöld í nokkrum borgum Englands þriðja sólarhringinn í röð, sem hefur haft þau áhrif á marga íbúa að þeir þora ekki út fyrir hússins dyr, bólar ekkert á ferðaviðvörun utanríkisráðuneytisins til Englands.

Né heldur bólar neitt á slíku hjá nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum en þær þjóðir voru nú ekki seinar fyrr á þessu ári að vara við ferðalögum til Túnis og Egyptalands einmitt vegna almennra mótmæla á götum úti í þeim löndum.

Þó vissulega sé menningarmunur á Englandi annars vegar og hinum tveimur löndunum hins vegar er líka ljóst að tugþúsundir Íslendinga heimsækja England ár hvert og London er helsti áfangastaður íslenskra flugfélaga dag hvern.

Ætti því ekki að vera lágmark að vara fólk við ferðum þangað með tilliti til að átök borgara í landinu virðast fara stigmagnandi?