Fátt er minna spennandi á ferðalögum en missa af tengiflugi en það er orðið nokkuð algengt nú þegar sífellt stærri hópur fólks kýs að ferðast á eigin vegum og gera sínar eigin ferðaáætlanir.

Ætli fólk að fljúga tengiflug frá Gatwick eða Heathrow er ástæða til að hafa rúman tíma.
Ætli fólk að fljúga tengiflug frá Gatwick eða Heathrow er ástæða til að hafa rúman tíma.

Þumalputtareglan heilt yfir er að gefa sér aldrei minna en þrjár klukkustundir sem púða milli flugferða. Það jafnvel þó að tengiflugið sé frá nákvæmlega sama flugvelli og jafnvel í sömu flugstöðvarálmu og þeirri sem lent er við.

Vissulega er freistandi að stytta biðtíma eins og hægt er enda leiðinlegt með afbrigðum að sitja lengi á flugvöllum. En það er ekki eins leiðinlegt og horfa á eftir tengifluginu vegna þess að eitthvað kom upp á í fyrra flugi.

En það er reyndar full ástæða til að henda gömlu þumalputtareglunni fyrir róða því staðreyndin er sú að Íslendingar nota oftast nær London sem millistopp áður en haldið er lengra. Þar stendur góður hnífur í kú því þeir flugvellir þar sem við notum hvað mest, Heathrow og Gatwick, eru meðal þeirra allra verstu hvað seinkanir og tafir varðar. Á ársgrundvelli ná hvorugur þessara flugvalla yfir 80 prósent stundvísi varðandi brottfarir og lendingar.

Það gildir jafnt um lendingar og brottfarir en ekki síður tekur lengri tíma að koma farangri í vélar eða úr vélum og á færibönd til farþega á þeim tveimur völlum en venjan er annars staðar. Það þó kannski ekki flugvallaryfirvöldum að kenna að þetta er raunin. Báðir flugvellir eru löngu sprungnir og gamlir og umferð á báðum nokkuð yfir því sem gert var ráð fyrir í upphafi.

Setjum þá staðreynd í samhengi við sömu stöðu í Leifsstöð yfir annatíma. Ítrekað hafa tafir orðið á brottförum frá Leifsstöð vegna anna síðustu misseri og með síauknum farþegafjölda og síauknum ferðamannastraumi verður það aðeins verra og verra.

Heilbrigð skynsemi segir manni því að fólk sem notar Leifsstöð og ætlar áfram í tengiflug frá Heathrow eða Gatwick í London ætti líklega að gefa sér meiri tíma en þrjár stundir. Fararheill skýtur á að fjórar stundir sé kannski nærri lagi til að vera 99 prósent örugg. Annaðhvort það eða gæta þess þegar ferðin er skipulögð að borð sé fyrir báru til að kaupa nýtt tengiflug ef með þarf og að viðkomandi sé ekki að missa af neinum viðburði strax fyrsta daginn á áfangastað.