Það gerir ferðalög óneitanlega eftirminnilegri en ella ef höfði er lagt annars staðar en á hefðbundnum gerilsneyddum hótelum. Til dæmis í ógerilsneyddum aldagömlum köstulum.

Eftirminnilegri dvöl í Skotlandi. Mynd Antonio Cinotti
Eftirminnilegri dvöl í Skotlandi. Mynd Antonio Cinotti

Það er áberandi eftirspurn á heimsvísu eftir annars konar upplifun en hefðbundin hótel hafa upp á að bjóða. Það sannar margt; íbúðaleigan Airbnb, sófavefurinn Couchsurfing svo ekki sé minnst á að margir hótelvefir bjóða nú líka villur, tjaldhýsi, tjaldvagna og fjallakofa auk annars í viðbót við hótelin. Enda verður að segjast að þó hótel almennt séu notaleg og þægileg stendur dvöl á þeim sjaldnast upp úr eftir að ferð lýkur.

Skotar búa svo vel að eiga enn allnokkra heillega kastala um sveitir og héruð. Sumir þeirra opnir almenningi og stöku kastalar þar eru orðin söfn. Svo eru nokkrir líka þar sem hægt er að fá gistingu. Ekki þarf mikið ímyndunarafl til að gera sér grein fyrir að það gæti verið spennandi lífsreynsla eina nótt eða svo.

En hvar eru slíkir kastalar og hvað kostar nóttin? Fararheill fór á stúfana og við fundum fjóra sem ekki eru frámunalega langt frá þéttbýlisstöðum en það er þó reyndin um kastala almennt í Skotlandi.

♥  Dornoch kastali  >> Hreint ekki miðsvæðis heldur í tæplega klukkustundar fjarlægð frá borginni Inverness á norðurströnd Skotlands. Þessi nýtur þó þeirrar sérstöðu að vera inni í miðju samnefndu þorpi sem þýðir að stutt er í aðra þjónustu. Kastalinn sjálfur ekki sá vígalegasti reyndar en barinn hér bætir það kannski upp sé fólk á annað borð fyrir viskí. Sá er margverðlaunaður sem einn besti viskíbar landsins. Sem eru ekki lítil meðmæli í þessu viskílandi.

♥  Dollarbeg kastali  >>  Margverðlaunað kastalahótel og sannarlega glæsilegt að sjá enda hefur byggingin verið endurnýjuð frá a til ö. Hann er ekki allur til leigu heldur örfá herbergi en þau líka fyrsta flokks. Verðið þó ekkert hræðilegt og stór plús að kastalinn er staðsettur við þorpið Dollar sem aftur er ekkert of langt frá Edinborg svo dæmi sé tekið (sjá kort neðst.) Nánar hér.

♥  Barcaldine  >>  Hinn 400 ára gamli Barcaldine kastali hefur ítrekað fengið gullverðlaun frá skoska ferðamálaráði fyrir fágun og flotta þjónustu. Hann er vel staðsettur skammt frá bænum Oban á vesturströnd landsins í rúmlega tveggja stunda fjarlægð frá Glasgow.

♥  Mercure Barony kastali  >>  Þessi ágæti kastali er á besta stað í 35 mínútna fjarlægð frá Edinborg til suðurs og stendur reyndar ekki langt frá landamærum Skotlands og Englands. Skrambi flottur að innan sem utan og landflæmi í allar áttir.

♥  Cornhill House kastali  >>  Þessi völundarsmíð gæti ekki legið betur. Nánast á milli Glasgow og Edinborg til suðurs í um 20 til 30 mínútna fjarlægð frá báðum borgum. Kylfingar gætu misst sig hér því fínasti golfvöllur á landareigninni og hér rennur áin Clyde ljúflega í gegn í þokkabót. Nánar hér.

♥  Fonab Castle Hotel  >>  Annar magnaður kastali sem gerður hefur verið upp frá grunni og þykir meðal þeirra allra bestu í Skotlandi. Fimm stjörnu pakki og verð eftir því. Þessi er langleiðina upp á hálendinu við bæinn Pitlochry og stendur á bökkum Faskally vatns. Nokkur spotti hingað frá stórborgunum eða einn og hálfur tími frá Edinborg.

♥  Glenapp kastali  >> Eitt flottasta og dýrasta hótel Skotlands er þetta mikla hefðarsetur til suðurs af Glasgow. Það hefur verið tekið svo um munar í gegn og er margverðlaunað. Antík í hverju horni og margvíslegt í boði á stórri landareign kringum kastalann. Allt lokað og læst með hliðum svo enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi og þeir sem eiga hér bókað.