Hann hefur verið dauður um áratugaskeið en er engu að síður ennþá í hugum aðdáenda hinn eini sanni rokkkóngur og engir komast með tærnar þar sem Elvis Presley hafði hælana.

Á landi Graceland hvílist Elvis í gröf sinni en garða búgarðsins er auðvitað hægt að skoða líka þegar miði er keyptur.
Á landi Graceland hvílist Elvis í gröf sinni en garða búgarðsins er auðvitað hægt að skoða líka þegar miði er keyptur.

Það sannast hvað best á stríðum straumi gesta að fyrrum heimili hans Graceland í Memphisfylki í Bandaríkjunum en staðurinn sá hefur um áraraðir verið einn mest sótti ferðamannastaður í öllu fylkinu. Fer þó reyndar tveimur sögum af heimsókn samkvæmt umsögnum fólks á vefmiðlinum Tripadvisor og finnst ansi mörgum þar helst til mikið verslunaræði kringum heimsókn hingað. Alls staðar er verið að pranga drasli tengdu goðinu inn á gesti.

Fyrir aðdáendur kóngsins er ferð til Graceland ekki minna ævintýri en fyrir múslima að sækja heim Mekka og heil sex prósent af öllum gestum Graceland eru frá löndum öðrum en Bandaríkjunum.

Ásóknin er það mikil að mælt er með að fólk verði sér úti um miða fyrirfram á netinu því ekki er hægt að ábyrgjast að miðar séu til öllum stundum mæti fólk bara beint á staðinn.

En hvað kostar að líta augum herlegheit konungsins?

Í boði eru þrenns konar miðar inn á Graceland. Miði A kostar 4.500 krónur á hvern fullorðinn og hann veitir aðgang að helstu vistarverum í byggingunni frægu. Enginn er þó leiðsögumaður en hljóðkerfi veitir helstu upplýsingar í hverju herbergi fyrir sig. Þar að auki er kvikmynd um fæðingarheimili Elvis í bænum Tupelo í Mississippi. Þessi túr tekur um eina og hálfa klukkustund

Miði B kostar 4.800 krónur en fyrir þann pening fæst túr um hús og garða Graceland, kvikmyndin frá Tupelo og að auki fær fólk að skoða bíla- og flugvélasafn Presley en hann átti fjölda bíla og tvær sérhannaðar flugvélar.

Dýrastur er auðvitað Miði C sem flokkast sem VIP og kostar fullorðinn 9.000 krónur. Í þeirri ferð fær fólk allt ofangreint plús forgang í allar raðir, og raðir eru hér víða á tyllidögum, og aðgang að þeim þremur sýningum sem hér eru um líf og störf tónlistarmannsins. Sá túr í heild tekur þrjár til fjórar stundir.

Í viðbót við þetta er vænlegt að gera ráð fyrir þúsundkalli í bílastæðisgjald ef komið er á bíl og fáir labba héðan út án þess að hafa fangið fullt af merkilegum minjagripum.

Heimasíða safnsins hér.

Til Memphis eru nokkrar leiðir færar frá Íslandi en til borgarinnar er flogið frá Denver, Boston og New York sem allar eru í beinu flugi frá Íslandi með Icelandair.