Við skulum bara viðurkenna það. Stór ástæða þess að okkur flest langar að ferðast út fyrir steina þessa lands er til að komast í fjölbreyttara úrval verslana erlendis sem jafnframt bjóða vörur á töluvert lægra verði en hér er raunin.

Sem annars staðar er tiltölulega ódýrt að versla í búðum í Washington en maturinn á veitingastöðum kostar meira. Mynd Robert Pos
Sem annars staðar er tiltölulega ódýrt að versla í búðum í Washington en maturinn á veitingastöðum kostar meira. Mynd Robert Pos

Samtök verslunarinnar mega mótmæla til endaloka heimsins en staðreyndin er samt sem áður sú að þær eru vandfundnar verslanir erlendis þar sem ekki má gera mikið betri kaup en hér heima. Gildir þar einu hvort litið er vestur um haf eða austur.

Ritstjórn hefur safnað saman upplýsingum um verðlag á nokkrum vinsælum hlutum og/eða afþreyingu í nokkrum yndislegum borgum heimsins síðustu vikurnar og nú röðin komin að höfuðborg Bandaríkjanna Washington DC.

Miðað við gengi krónu gagnvart bandarískum dollar í september 2017 er verðlag heilt yfir 27 prósent lægra að meðaltali en í verslunum í Reykjavík utan útsölutíma. Hér kosta vinsælar Levi´s gallabuxur rétt tæpar fimm þúsund krónur, vinsæl týpa af Nike hlaupaskóm tæpar átta þúsund krónur og flott jakkaföt frá lúxusmerkjum kringum 60 til 90 þúsund krónur.

Þetta breytist töluvert fari fólk út að borða því máltíðin hér í Washington er að meðaltali 5 prósentum dýrari en heima  í Reykjavík. Gera skal ráð fyrir að máltíð á ódýrum stað kosti rétt um tvö þúsund krónur en ætli par út að borða á sæmilegum stað þríréttað eru tíu þúsund krónur nærri lagi. Á hinn bóginn kostar mjöður töluvert minna. Stór bjór á veitingastað/bar fæst á 550 til 600 krónur oftar en ekki. Sami verðmunur á víni.

Ferð með strætisvagni / lest innan borgar kostar 260 krónur og startgjald leigubifreiða 370 krónur. Bensínlítrinn hér í borg hefur verið að rokka í kringum 120 krónur undanfarna mánuði.

Nánari upplýsingar um borgina, kosti og lesti, verslanir og afþreyingu og auðvitað allra ódýrustu gistingu í boði fást í vegvísi Fararheill um Washington hér.

* heimildir Expats, Numbeo, OECD