Ekki reyna að þræta fyrir það. Þú, eins og 99,9 prósent annarra Íslendinga, sækir grimmt í verslanir erlendis enda alls óþekkt á Íslandi að fólk geti keypt mikið fyrir lítið á einum og sama staðnum hér heima 🙂

Auðvitað er hægt að gera fínustu kaup í Chicago. Mynd Bert Kaufmann
Auðvitað er hægt að gera fínustu kaup í Chicago. Mynd Bert Kaufmann

Öðru máli gegnir um bandarísku borgina Chicago. Þrátt fyrir að hún sé mjög dýr á þarlendan mælikvarða, fjórða dýrasta borg Bandaríkjanna samkvæmt lista USA Today, á það lítið skylt við almenna verslun og meira við hita og rafmagn, skemmtanir og þetta daglega lifibrauð.

Heilt yfir er verðlag í borginni ekki langt frá því sem gerist á „farsæla Fróni.“ Aðeins munar 16% almennt talað á verðlagi í Chicago og Reykjavík þeirri bandarísku í vil. Veitingahúsaferð er aðeins um 20% ódýrari almennt en heimavið.

Það er ekki fyrr en komið er í glingur hvers kyns og vinsældavarning sem íslenska krónan fer virkilega að telja. Fatnaður almennt er 45% til 55% ódýrari í verslunum hér en heima. Þessar sívinsælu Levi´s gallabuxur kosta hér varla meira en sex þúsund krónur en fara vel yfir 20 þúsund heimavið. Nýir Nike skór kosta sjaldan yfir tíu þúsund í bandarísku borginni en vel yfir helmingi hærra heimavið. Sumarkjóll í verslun í Chicago fæst vel undir fimm þúsund krónum svo nokkur dæmi séu tekin.

Bjór á barnum fæst almennt á 600 til 700 krónur vestanhafs og ekki þarf að segja neinum að hér fæst McDonalds máltíð fyrir sex hundruð krónur heilt yfir.

Sé farið í vænlegri veitingastaði minnkar munurinn en er þó bandarísku borginni í vil. Víða hægt að borða ágætlega niður í 1400 krónur og sé farið í góðan klassa og þríréttað á mann má gera ráð fyrir átta þúsund krónum úr vasa svona að jafnaði.

Alls óhrædd að taka leigubíl í Chicago. Bæði startgjald og almennur taxti helmingi lægri en heima á Íslandinu dýra. Jafnvel enn lægra verð með Uber eða Lyft leigubílaþjónustunum utan annatíma. Bílaleiga í sólarhring kostar helming þess sem það gerir hér heima og eldsneyti á tankinn meira en helmingi ódýrara.

* heimildir: Expats, Numbeo, Facebook m.v. gengi í júlí 2017.