Við skulum bara viðurkenna það. Stór ástæða þess að okkur flest langar að ferðast út fyrir steina þessa lands er til að komast í fjölbreyttara úrval verslana erlendis sem jafnframt bjóða vörur á töluvert lægra verði en hér er raunin.

Róm er tvöfalt skemmtilegri viti gestir eitthvað um sögu hennar og fortíð. Mynd Moyan Brenn
Róm er tvöfalt skemmtilegri viti gestir eitthvað um sögu hennar og fortíð. Mynd Moyan Brenn

Samtök verslunarinnar mega mótmæla til endaloka heimsins en staðreyndin er samt sem áður sú að þær eru vandfundnar verslanir erlendis þar sem ekki má gera mikið betri kaup en hér heima. Gildir þar einu hvort litið er vestur um haf eða austur og miðað við verðlag almennt en ekki á útsölutímum þegar vörur fást töluvert ódýrari en ella.

Ritstjórn hefur safnað saman upplýsingum um verðlag á nokkrum vinsælum hlutum og/eða afþreyingu í nokkrum yndislegum borgum heimsins síðustu vikurnar.

Röðin komin að hinni eiturskemmtilegu Róm og útkoman gæti komið ítalskt fyrir sjónir þeim er telja að Róm sé hræbilleg til allra hluta. Miðað við gengi krónu gagnvart evru í janúar 2020 er verðlag í verslunum Rómar almennt aðeins 20 prósent lægra en í verslunum í Reykjavík. Dæmin mýmörg en hér kosta vinsælar Levi´s gallabuxur rúmar tíu þúsund krónur, vinsæl týpa af Nike hlaupaskóm rúmar sjö þúsund krónur og flott jakkaföt frá lúxusmerkjum þetta 40 þúsund og uppúr.

Máltíð á góðum veitingastað í Rómarborg kostar hins vegar 6 prósent meira en sams konar máltíð í Reykjavík. Þannig fæst máltíð á ódýrum veitingastað vart undir tvö þúsund krónum og ætli fólk á betri stað og borða þríréttað er kostnaðurinn kominn vel yfir níu þúsund krónur að meðaltali. kostar milli sex og sjö hundruð krónur og þríréttað á betri veitingastað fyrir tvo vart yfir 3.500 krónum. Stór bjór á veitingastað/bar fæst á 800 til 900 krónur.

Ferð með strætisvagni / lest innan borgar í Róm kostar 240 krónur og startgjald leigubifreiða rétt rúmar 600 krónur. Lítraverð á bensíni kostar víðast hvar 280 krónur.

Dyggir lesendur vita að okkur hjá Fararheill finnst nákvæmlega ekkert leiðinlegt að heimsækja Róm þó vissulega séu hlutar þessarar borgar allt of pakkaðir af erlendum ferðamönnum. Trixið að fara utan háannatíma sem er reyndar stundum erfitt að giska á. Óvitlaust að kíkja á vegvísi Fararheill til Rómar og fá fróðlegt efni beint í æð auk þess sem þar má bóka allra, allra ódýrustu gistingu sem völ er á.