Það vita þeir sem farið hafa með smáfólkið til Orlando að öll afþreyingin sem þar er til staðar er ekki aldeilis ókeypis. Þvert á móti er kostnaðurinn við að dúlla sér í nokkrum stærri skemmtigörðum svæðisins töluverður.

Alltaf gaman að Mikka mús en það kostar að heilsa upp á kauða. Mynd RobertCiavarro
Alltaf gaman að Mikka mús en það kostar að heilsa upp á kauða. Mynd RobertCiavarro

Fararheill.is hefur tekið saman kostnaðinn við heimsókn í helstu afþreyingarmiðstöðvarnar í Orlando og nágrenni. Þannig er hægt að fá einfalt yfirlit yfir hvað telst vera innan marka og hvað er of dýrt ef þú finnur þig á þessum slóðum með börnin í eftirdragi.

* Verð eru í krónum miðað við gengi dagsins 21. janúar 2017 miðast við kaup á netinu sem er alltaf lægra en verð á staðnum. Á staðnum óhætt að bæta við 10 til 20 prósent ofan á tilgreint verð. Hafa skal í huga að í mörgum tilfellum er hægt að spara nokkrar upphæðir með kaupum á miðum í fleiri en einn dag. Einnig skal hafa í huga að í sumum tilfellum þarf að greiða aukalega fyrir sérstakar sýningar eða viðburði jafnvel þótt fullt verð hafa verið greitt inn í garðinn. Að síðustu hefur dollarinn verið að styrkjast töluvert en krónan okkar ekki svo ekki láta þér bregða ef miðaverð hækkar meira fljótlega en hér kemur fram.

√ Disneyworld – Dagsmiði fyrir tíu ára og eldri kostar 15.900 krónur en 15.300 fyrir yngri en það að meðtöldum sköttum. Frítt fyrir yngri en þriggja ára.

√ Universal Orlando – Aðgangur að þessum sívinsæla skemmtigarði kostar 19.900 krónur fyrir 10 ára og eldri. Yngri en það greiða 19.300 krónur. Hafa skal í huga að Universal rekur tvo garða og þetta verð gildir um aðgang að öðrum þeirra.

√ Kennedy Space Center – Einn af fáum stöðum þar sem fræðast má samhliða skemmtuninni. Miðaverð 6.600 fyrir fullorðna en 5.500 fyrir yngri en tólf ára.

√ Seaworld – Aðgangur hér kostar áhugasama yfir þriggja ára aldur 10.300 krónur. Frítt fyrir yngri en það.

√ Busch Gardens – Inn hér kostar fullorðna 10.300 krónur fyrir alla eldri en þriggja ára. Yngri fá ókeypis inn.

√ Wet´n Wild – Sama verð fyrir alla aldursflokka. 6.300 krónur kostar aðgangur einn dag.